Lífið

Við erum öll að dragnast með eitthvað í gegnum lífið

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona.
Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona. Fréttablaðið/Arnþór
„Það er orðið langt síðan ég hef vitað eitthvað svona langt fram í tímann, það er ótrúlega góð tilfinning. Hitt er líka fínt, þetta „free-lance“ líf, en það getur stundum alveg boðið upp á lítil hjartaáföll,“ segir leikkonan Arndís Hrönn Egilsdóttir.

Leiklistin hefur alla tíð átt hug og hjarta Arndísar. Þegar hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin til Parísar þar sem hún lærði leikhúsfræði og leiklist, auk þess að ná góðum tökum á frönskunni.

„Á sumrin hef ég því einnig getað unnið mikið sem „guide“ fyrir franska ferðamenn. Ég hef meira að segja náð að fara hringinn nokkrum sinnum í sumar, eitthvað sem margir gera kannski aðeins einu sinni á lífsleiðinni.“

Endurkoma í leikhúsiðÞrátt fyrir að leiklistin hafi alla tíð verið stór partur af lífi Arndísar hefur lítið borið á henni á stóra sviðinu síðustu ár, allt þar til í fyrra, en þá fékk hún hlutverk í gamandramanu Bláskjá eftir Tyrfing Tyrfingsson.

„Fyrir mér var þetta ákveðin endurkoma í leikhúsið. Maður fer alltaf að velta því fyrir sér hvort maður kunni þetta enn en svo hverfur sú tilfinning. Ég hafði gott af þessu hléi og það var dálítið það sem ég þurfti og vildi. Á þessum tíma eignaðist ég mitt fyrsta barn, orðin fertug, og fór í framhaldinu í mastersnám í bókmenntum. Ég fann hvað ég hafði gott af því að breyta aðeins til og koma inn í leikhúsið á nýjum forsendum.“ 

Meira frá Sokkabandinu
Boltinn fór að rúlla að nýju eftir velgengni Bláskjás og fram undan er stór og spennandi leikhúsvetur.

„Það mætti í raun segja að ég sé á kafi á verkefnum. Núna í sumar hef ég verið við tökur á Flateyri fyrir myndina hans Rúnars Rúnarssonar, Þresti. Bláskjár fer svo aftur á sviðið í Borgarleikhúsinu í vetur og svo leik ég í litlu fjölskylduleikriti sem heitir Útlenski drengurinn og er eftir Þórarin Leifsson í Tjarnarbíói en þar fer Dóri DNA með aðalhlutverkið. Svo er það jólaleikrit Borgarleikhússins, Brúðuheimilið, þar sem ég leik ekkjuna Kristínu Linde. Ég hlakka mikið til að takast á við það verk,“ segir Arndís.

Einnig stendur til að endurvekja samstarf hennar og Elmu Lísu Gunnarsdóttur en þær tvær stofnuðu Sokkabandið fyrir rúmum áratug. „Við í Sokkabandinu ætlum í spennandi samstarfsverkefni með Borgarleikhúsinu. Þetta er verk sem heitir History og verður leikið af okkur Elmu Lísu og Birgittu Birgisdóttur en það er hin frábæra Kristín Eiríksdóttir sem skrifar verkið. Þetta verður ofboðslega gaman, sérstaklega af því að þetta er gæluverkefni sem kemur frá okkur sjálfum.“

Eftir það er áætlað að tökur á fjórðu seríunni af Pressu hefjist.

Margar leikkonur að detta útArndís tekur verkefnunum fagnandi enda segir hún það ekki sjálfgefið að hlutverkin hrannist upp hjá leikkonum á hennar aldri. „Ég er nefnilega komin á þennan svokallaða virðulega aldur en á mínum aldri eru margar konur að detta út úr leikhúsinu. Ég hins vegar virðist vera að koma aftur inn,“ segir Arndís og hlær.

Margir hafa gagnrýnt leikhúsheiminn fyrir mikinn skort á bitastæðum kvenhlutverkum. Arndís tekur undir þetta en segir það í verkahring kvenna að rétta þennan halla.

„Það erum við sjálfar sem eigum að breyta þessu. Við eigum að skrifa hlutverk fyrir konur eða leita uppi og draga fram þau verk sem segja frá alls konar konum. Það eru sannarlega til margar sögur af stórmerkilegum konum sem eiga heima í leikhúsinu. Þetta er þó sem betur fer að breytast og maður sér margar frábærar konur starfa í kvikmynda- og leikhúsbransanum sem eru að skrifa fyrir konur, sem er alveg æðislegt.“

Fyrsta barnið fertug
Mæðgurnar í Porto í sumar.
Talið berst að einkalífinu en fyrir rúmum fjórum árum, þegar Arndís stóð á fertugu, eignaðist hún sitt fyrsta barn og við tóku breyttir tímar.

„Líf mitt varð einfaldlega þannig að ég átti barn seint. Ég var ekki mikið að spá í þetta á milli tvítugs og þrítugs þegar margar konur voru að eignast börn. En svo kynntist ég manninum mínum, Eiríki, fyrir níu árum og við eignuðumst dótturina Úlfhildi Júlíu fimm árum síðar. Hún er brjálæðislega skemmtileg og fyndin og er ljósið í lífi mínu. Það er auðvitað kannski ekki normið að eignast börn um fertugt en fyrir mér er þetta fullkomið. Mér finnst gott að vera þroskað foreldri.“

Börn eiga ekki að deyjaArndís er elsta barn foreldra sinna. Á eftir henni í röðinni er Hrafnkell, sellóleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, og þegar Arndís var tíu ára fæddist Egill Högni.

„Egill Högni dó þegar ég var fimmtán ára. Hann fékk sjúkdóm sem kallast „Reye syndrome“. Hann veiktist og dó örfáum dögum síðar. Á nokkrum dögum breyttist líf okkar því algjörlega. Á þessum tíma var ég bara upptekin á diskótekunum svo að þetta varð algjört áfall. Börn eiga náttúrulega ekki að deyja.“

Stuttu eftir fráfall Egils Högna eignaðist móðir Arndísar tvíbura, þá Andra og Högna.

„Ég var sextán ára þegar þeir komu í heiminn og man að mér fannst þeir vera algjör guðsgjöf. Ég hef alltaf verið með smá móðurtilfinningu gagnvart þeim. Mér fannst ég alltaf þurfa að passa svolítið upp á þá en það hefur örugglega líka litað það að hafa átt bróður sem dó. Ég fann að lífið var ekki sjálfsagt.“ 

Sjúkdómurinn gerði fjölskylduna nánari
Högni, Arndís, Hrafnkell og Andri.
Högna þekkja Íslendingar vel sem tónlistarmann og söngvara en Andri starfar sem stærðfræðingur hjá Seðlabanka Íslands. Fyrir fáeinum árum greindi Högni frá því opinberlega að hann væri með geðhvörf. Arndís segir að sjúkdómurinn hafi gert fjölskylduna nánari ef eitthvað er. Allir hafa lagt sitt af mörkum til að aðstoða og hjálpa.

„Þetta hafði auðvitað áhrif á okkur öll. Maníur geta verið átakanlegar en hann hefur barist við þetta eins og ljón. Það má í raun líka líta á geðhvörfin sem gjöf því þau tengjast jú sköpunargáfunni. Þau eru hluti af hans innra ferðalagi, hans frumkrafti sem nýtist við listsköpun. En það þarf að læra á sjúkdóminn og það er lífstíðarverkefni. Ég þekki ekki maníuna en ég þekki depurðina og það er bara partur af mér og partur af því að vera lifandi.“ 

Arndís er stolt af bróður sínum fyrir að hafa opnað umræðuna um geðsjúkdóma.

„Hann ákvað að brjóta þessi tabú og opna umræðuna. Auðvitað hefur það verið erfitt að kljást við geðhvörfin og ég hef stundum haft áhyggjur af honum. Allir tala um að þeir leitist eftir því að vera í jafnvægi, sem er nokkuð sem allir vilja vera í. Svo er það auðvitað önnur spurning, hvað er þetta jafnvægi sem menn vilja og þrá? Við erum öll að dragnast með eitthvað í gegnum lífið og allir eru að reyna að gera eins vel og þeir geta. Fjölmargir hafa verið að brjóta niður ákveðna múra og opna á umræðu um hin ýmsu mál og það er auðvitað frábært og nauðsynlegt. Það verður einhvern veginn alltaf skemmtilegra og betra að búa á Íslandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×