Erlent

Vestrænir leiðtogar óvelkomnir í rússneskri fríhöfn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skiltið í flughöfninni í Vladivostok.
Skiltið í flughöfninni í Vladivostok. MYND/MICHAEL IDOV
Vestrænir leiðtogar sem hyggjast sækja Vladivostok í Rússlandi heim munu ekki fá neina afgreiðslu í fríhöfn borgarinnar, ef marka má skilti sem komið hefur verið upp í flugstöðinni.

Á skiltinu, sem sjá má á myndinni hér til hiðar, segir að í samráði við stjórnendur fríhafnarinnar séu eftirfarandi aðilar ekki velkomnir í verslunina og að þeim verði neitað um þjónustu. Því næst eru taldir upp 13 framámenn í alþjóðlegum stjórnmálum, þar af 6 frá Úkraínu.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, er þar efst á lista. Því næst kemur kanslari Þýskalands, Angela Merkel, forsætisráðherra Kanada Steven Harper er þar einnig rétt eins og breski kollegi hans, David Cameron. Hinn franski Francois Hollande, Tony Abbott frá Argentínu og forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, eru einnig óvelkomnir í fríhöfn flugstöðvarinnar.

Piotr Poroshenko, forseti Úkraínu, forsætisráðherrann Arsení Jatsenjúk og borgarstjóri Kænugarðs, Vitali Klitschko eiga einnig von á óblíðum viðtökum í flugstöðinni.

Skilti sem þetta hafa sprottið upp víðsvegar um Rússland í kjölfar viðskiptaþvingananna sem Vesturlönd hafa beint gegn landinu á síðustu vikum. Flest skiltanna hafa þó verið frumstæð, oftar en ekki skrifuð á pappa sem komið er fyrir í gluggum lítilla verslana, en það sama er ekki upp á teningnum með tilkynninguna í flugstöðinni.

„Það sem sló mig í þessu máli er bæði staðsetningin, á alþjóðaflugvelli í borg sem hýsti alþjóðlega tónlistarhátíð fyrir skömmu, og falleg hönnun skiltisins," segir MICHAEL IDOV, rithöfundurinn sem smellti af myndinni hér að ofan. „Ég get ekki ímyndað mér að þessu skilti hafi verið komið fyrir án samþykkis forstöðumanna flugvallarins," bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×