Bíó og sjónvarp

Vestfirsk upplýsingasíða fyrir ferðamenn sögð hafa ljóstrað upp um leyndarmál Hollywood

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frétt þar sem minnst var á að Jared Leto væri í leikarahópi Justice League fór á flug víða um heim.
Frétt þar sem minnst var á að Jared Leto væri í leikarahópi Justice League fór á flug víða um heim. Vísir
Vefsíðan Visit Westfjords varð á dögunum skyndilega miðpunktur frétta um mögulegt hlutverk hjartaknúsarans Jared Leto í myndinni Justice League sem tekinn verður upp að hluta á Vestfjörðum.

Í frétt sem birtist á vefnum 1. september síðastliðinn er því haldið fram Jared Leto muni koma til landsins, ásamt fríðu föruneyti þekktra leikara, til þess að leika í myndinni Justice League en tökur á henni munu hefjast á næstu mánuðum í Djúpuvík.

Mikið hefur verið slúðrað um að Leto muni bregða fyrir í myndinni sem Jókerinn, sem hann lék í myndinni Suicide Squad, en ekkert fengið staðfest í þeim efnum.

Sjá einnig: Kristbjörg Kjeld, Ágústa Eva og Salóme einnig í Justice League

Kvikmyndasíðan vinsæla Movie Pilot greip þetta á lofti og taldi sig hafa fengið staðfestingu á orðrómum um mögulegt hlutverk Leto í Justice League. Vitnar vefsíðan í frétt Visit Westfjords og spurði í leiðinni hvort að íslensk ferðamannasíða hafi í alvörunni ljóstrað upp um stóra leyndarmálið.

Landslagið á Ströndum á íklega að vera frá framandi plánetu í myndinni.Vísir
Umferðin margfaldaðist

Svo reyndist ekki vera líkt og fjallað hefur verið um víða erlendis í dag og í gær. Díanna Jóhannsdóttir, markaðstjóri Markaðsskrifstofu Vestfjarða og umsjónarmaður Visit Westfjords síðunnar segir að heimildir Markaðsskrifstofunnar fyrir komu Leto hafi ekki verið skotheldar.

„Þetta var byggt á öðrum fréttum og getgátum,“ segir Díana í samtali við Vísi um fréttina sem fór svo víða. „Umferðin á síðuna hefur margfaldast en það er fínt að svona margir sjái myndir af Djúpuvík.“

Sjá einnig: Svarti sandurinn kveikti áhuga Hollywood á Íslandi

Þrátt fyrir að Leto munu ekki láta sjá sig er alveg ljóst að tökur Justice League munu hefjast á næstu mánuðum í Djúpuvík og búist er við allt að tvö hundruð manna tökuliði mæti til Íslands vegna myndarinnar. Þá er von á að skemmtiferðaskip verði fengið á staðinn til að hýsa starfsliðið.

Díana segir að lengi hafi verið stefnt að því að fá slíka framleiðslu til Vestfjarða en æ vinsælla verður að taka stórar kvikmyndir eða þætti upp á Íslandi og má þar nefna verkefni á borð við Star Wars, Game of Thrones og Interstellar.

„Hingað hafa komið mjög fá verkefni og það er mjög skemmtilegt að þetta skuli detta inn og sérstaklega á svona stað eins og Djúpuvík sem er einstök náttúruperla. Við erum mjög spennt.“

25 milljarða króna framleiðsla

Myndin er í leikstjórn Zack Snyder og er áætlaður að kostnaður við gerð hennar nemi 220 milljónum dollara, um 25 milljörðum króna en hér fyrir neðan má sjá brot úr myndinni.

Ingvar E. Sigurðsson, Kristbjörg Kjeld, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Salóme Gunnarsdóttir munu leika í myndinni en Með helstu hlutverk í myndinni fara Ben Affleck og Jason Momoa sem Batman og Aquaman, Henry Cavill sem Superman, Gal Gadot sem WonderWoman, Ezra Miller sem The Flash og Ray Fisher sem Cyborg.

Þá er kunnugleg andlit þar einnig á borð við Amy Adams sem Lois Lane, J.K. Simmons sem Gordon lögreglustjóri, Jesse Eisenberg sem Lex Luthor, Willem Dafoe sem Nuidis Vulko og Jeremy Irons sem Alfred Pennyworth.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×