Enski boltinn

Vesen og vandræði á stuðningsmönnum West Ham á nýja heimavellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það voru ólæti á leiknum í gær.
Það voru ólæti á leiknum í gær. Vísir/Getty
West Ham komst áfram í enska deildabikarnum í gær eftir sigur á Chelsea en flottur sigur féll í skuggann á ömurlegri hegðun stuðningsmanna í stúkunni.

Stuðningsmönnum West Ham og Chelsea lenti saman í stúkunni og reyndi óeirðalögregla að skakka leikinn. Lögreglan handtók á endanum sjö áhorfendur. BBC segir frá.

Ólætabelgirnir köstuðu plastflöskum, sætissetum og peningum á meðan leiknum stóð. Yifr hundrað stuðningsmönnum lenti saman og það var dapurlegt að sjá vandræðin og leiðindin í stúkunni.

Þetta er heldur ekki ekki í fyrsta sinn sem að það sýður upp úr í stúkunni á heimaleikjum West Ham á þessu tímabili.  Það lítur því út fyrir að ólæti West ham áhorfenda ætli að vera fylgifiskur þess að flytja frá Upton Park og á nýja völlinn London Stadium.

Slaven Bilic, knattspyrnustjóri West Ham, var mjög ósáttur og harðorður gagnvart hegðun stuðningsmannanna eftir leikinn. Hann talaði um óásættanlega hegðun og að félagið væri algjörlega á móti þessu.

Einn áhorfandi talaði við BBC: „Þetta var eins og á áttunda áratugnum. Magnið af klinki og sætum sem var kastað. Þetta var algjör martröð. Það var fólk mætt á leikinn til þess að skapa vandræði og þau vildu vera þar í fararbroddi,“ sagði umræddur áhorfandi.

Forráðamenn West Ham hafa líka gefið það út að allir stuðningsmenn West Ham sem komu að ólætunum verði settir í lífstíðarbann frá leikjum liðsins.

Öryggisgæslan var stóraukin fyrir þennan Lundúnaslag og þá var líka áfengisbann í gildi í tengslum við leikinn. Ólæti fyrr á tímabilinu kölluðu á slíkar aðgerðir en það var samt ekki nóg til að koma í veg fyrir þessi læti í stúkunni.

Fyrsta tímabil West Ham á Ólympíuleikvanginum er rétt svo hafið en samt hafa 23 stuðningsmenn verið settir í bann. Það voru ólæti á bæði leik liðsins á móti Middlesbrough 1. október sem og á móti Watford í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×