Innlent

Verzló kemur til móts við fanga

Í sumar fá fangar afslátt af skólagjöldum Verzlunarskólans.
Í sumar fá fangar afslátt af skólagjöldum Verzlunarskólans. Vísir/Vilhelm
Verzlunarskóli Íslands gefur föngum sem vilja stunda nám við skólann í sumar afslátt af skólagjöldunum.

Einnig mun skólinn koma til móts við þá fanga sem hafa ekki ráð á að greiða skólagjöldin í einu lagi með því að skipta greiðslum. Fjárhagsstaða fanga mun ekki koma í veg fyrir að þeir geti stundað nám við skólann.

Nú þegar hafa nokkrir fangar í afplánun skráð sig í fjarnám í skólanum í sumar. Námið stendur öllum föngum til boða.

Á heimasíðu Verzlunarskólans er þó tekið fram að samkvæmt fjárlögum ársins 2015 sé ekki gert ráð fyrir að ríkið borgi með nemendum sem eru 25 ára og eldri. Hins vegar sé það vilji Verzlunarskólans að bjóða öllum aldurshópum upp á fjarnám eftir því sem hægt er, óháð aldri. Allir geti því sótt um fjarnám við skólann, en sá fyrirvari gerður að 25 ára og eldri verða teknir inn ef það er laust pláss.

Félag fanga, Afstaða, lýsir yfir mikilli ánægju með frumkvæði Verzlunarskólans. „Það sýnir að ýmislegt er hægt með samtali og áhuga á að koma einstaklingnum betri út í þjóðfélagið aftur,“ segir í yfirlýsingu félagsins um fréttirnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×