Erlent

Versta flugfélag heims?

Samúel Karl Ólason skrifar
Ekki eru allir sammála um kosti og galla Air Koryo.
Ekki eru allir sammála um kosti og galla Air Koryo. Vísir/AFP
Ef farþegar Air Koryo taka myndir út um glugga vélarinnar eða í vélinni, eru líkur á því að flugþjónar taki myndavélar af þeim og eyði myndunum. Bannað er að brjóta saman dagblöð sem sýna myndir af Kim Jong-un. Geri farþegar þessa flugfélags það gætu þeir átt von á skömmum frá starfsmönnum um borð.

Breska fyrirtækið SkyTrax, sem metur gæði flugfélaga og flugvalla, hefur nú í fjögur ár í röð veitt Air Koryo aðeins eina stjörnu. Flugfélagið, sem er frá Norður-Kóreu og í eigu stjórnvalda þar, er eina félagið af rúmlega 180 sem hefur einungis fengið eina stjörnu.

Sérfræðingar sem AP fréttaveitan ræddi við segja að Air Koryo sé sannarlega ekki versta flugfélag heims. Þrátt fyrir að flugferðir þess séu sérkennilegar sé félagið nokkuð áreiðanlegt. Þeir segja SkyTrax einblína á þjónustu en ekki öryggi.

Einsleit afþreying

Simon Cockerell sendir marga ferðamenn með Air Koryo og hann segir að um borð í flugvélum flugfélagsins séu engin tímarit, maturinn muni aldrei vinna nein verðlaun og flugþjónarnir tali nánast engin önnur tungumál en kóresku. Þar að auki séu flestar flugvélarnar gamlar og vatn eigi til að leka úr miðstöð vélanna í sætin og á farþega.

Farþegar véla Air Koryo geta horft á fátt annað en stúlknahljómsveitina Moranbong Band syngja fagra söngva um Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Þó er í boði að horfa á teiknimyndir frá Norður-Kóreu.

Þó segir Cockerell að mat SkyTrax sé ósanngjarnt. Greinilegt er að farþegar flugfélagsins eru heldur ekki sammála mati AirTrax á gæðum Air Koryo og er fyrirtækið með 6/10 í meðaleinkunn. Einn farþegi nefnir þó tungumálakunnáttu flugþjóna vélarinnar og umhyggju þeirra um öryggi farþega.

L. James segir að þegar starfsmaður flugfélagsins hafi átt að fara yfir öryggisatriði vélarinnar hafi hún staðið upp, litið í kringum sig og séð ekkert nema útlendinga.

„Þá yppti hún bara öxlum, ranghvolfdi augunum og settist aftur niður.“

Margt hefur þó skánað hjá flugfélaginu á síðust árum. Fjórar nýlegar flugvélar eru notaðar til millilandaflugs. Vélarnar séu yfirleitt á réttum tíma og aðeins einu sinni hefur einhver látist í slysi hjá Air Koryo og það var 1983.

Hér að neðan má sjá nokkur vel valin lög eftir Moranbong Band sem farþegar Air Koryo geta einnig horft á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×