Innlent

Verslunarmannahelgarveðrið á landinu: „Það verður sitt lítið af hverju fyrir alla“

Atli Ísleifsson skrifar
Spáin fyrir hádegi á morgun.
Spáin fyrir hádegi á morgun. Mynd/Veðurstofan
„Það verður meinlaust veður á landinu yfir verslunarmannahelgina,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofunni, aðspurður um hvernig muni viðra á landsmenn um verslunarmannahelgina.

Teitur segir að vindurinn verði hægur nema með örfáum undantekningum. „Flestir landshlutar fá einhverja smávegis rigningu en einnig vænan skammt af sólskini. Það verður ekki sérlega hlýtt og þannig liggur fyrir að hvergi megi búast við að hitinn fari upp í tuttugu stig.“

Búast megi við að tíu til fimmtán stig verði sennilega algengasta hitabilið þó að það muni sjást hærri og lægri hitatölur hér og þar.

En hvar verður besta veðrið? Hvert ætti fólk að fara ef það hyggst elta veðrið á lið sinni út úr bænum?

„Ég kem nú til með að verða á höfuðborgarsvæðinu vegna vinnu og það virðist nú ætla að verða ágætis veður þar. Ég held að sé ekki sérstök ástæða fyrir fólk að elta veðrið. Það er ekki mikill munur á því milli landsluta. Það verður sitt lítið af hvoru fyrir alla og því ætti fólk að fara á sinn uppáhaldsstað frekar en að fara sérstaklega eftir veðrinu.“

Teitur segir að sumar spár fyrr í vikunni hafi gert ráð fyrir að það myndi hvessa verulega á mánudeginum, en nýjustu spár gera ráð fyrir fremur rólegum vindi á mánudeginum. „Því verður fínasta veður fyrir heimferðina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×