Viðskipti innlent

Verslun með raftæki margfaldaðist á Svörtum fössara

Sæunn Gísladóttir skrifar
Fólk í biðröð fyrir utan Elko á svörtum fössara.
Fólk í biðröð fyrir utan Elko á svörtum fössara. vísir/eyþór
Samkvæmt gögnum Borgunar var velta korthafa á svörtum föstudegi svokölluðum í síðustu viku ekki hærri en suma aðra daga nóvembermánaðar. Svartur föstudagur er bandarískur siður og var fjöldi verslana á landinu með afsláttartilboð þennan dag.

Borgun tók saman gögn um allan nóvembermánuð 2016. Samkvæmt þeim virðist erlenda veltan hafa aukist meira hlutfallslega þessa helgi heldur en velta þeirra sem versla hér heima. Mögulega fara Íslendingar utan á þessum tíma til að versla.

Ef skoðuð eru innlend gögn seljendamegin má sjá að verslun með raftæki og tölvur eykst um 240 prósent þennan dag. Húsgagnaverslanir velta 360 prósentum meira og fata- og skóverslanir 70 prósentum meira. Að sama skapi minnkar velta í matvöruverslunum um 30 prósent, bensínsala minnkar um 50 prósent og veitingasala um 20 prósent.

Því mætti lesa úr gögnunum að svartur föstudagur sé að virka hjá þeim stöðum sem eru með tilboð í gangi, fólk fari ef til vill ekki að kaupa bensín eða matvörur því að það sé upptekið við annað. Þó að heildarupphæðin hafi verið svipuð og aðrar helgar má áætla að þeir sem voru með tilboðin hafi aukið veltu sínu.

Gögn Borgunar eru ópersónugreinanleg og um er að ræða bæði debet- og kreditkortagögn. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×