Viðskipti innlent

Verslun jókst á milli ára í öllum flokkum smásöluverslunar

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Verslun er blómleg.
Verslun er blómleg. Vísir/RVK
„Velta jókst í öllum flokkum Smásöluvísitölunnar í maí mælt á föstu verðlagi. Dagvöruverslun í maí var 4,1 prósent meiri en í sama mánuði í fyrra en einnig var töluverður veltuvöxtur í flokkum varanlegra neysluvara. Sem dæmi jókst húsgagnaverslun um 18 prósent og byggingavöruverslun um 22 prósent, verslun með raftæki jókst einnig nokkuð.“ Þetta segir í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Kaup og sala á dagvöru sveiflast jafnan ekki mikið. Veltan hefur þó verið nokkuð lífleg undanfarin misseri. Þó verður að líta til þess að eins og segir hér að ofan jókst dagvöruverslun í maí um 4,1 prósent milli ára en fimm föstudagar og laugardagar voru í maí í fyrra en aðeins fjórir í ár. „Ef tekið er tilllit til árstíðabundinna þátta og vikudagaáhrifa jókst velta dagvöruverslunar því meira, eða um 5,9% frá maí 2015 á föstu verðlagi.“

Byggingarvöruverslun blómleg

Vísitala byggingarverslunar í maí hefur aldrei verið hærri, eða ekki frá því að flokknum var bætt inn í Smásöluvísitöluna hvort sem hún er mæld á föstu eða breytilegu verðlagi.

„Þannig var velta byggingavöruverslunar í maí 6,6 prósent hærri en í fyrra hámarki sínu í júlí 2015 á breytilegu verðlagi. Verslun með byggingavörur var 22 prósent meiri en í maí í fyrra á föstu verðlagi en 23,7 prósent meiri á breytilegu verðlagi. Verðlag byggingavara hefur á sama tíma hækkað um 1,6 prósent.“

Skóverslun minnkaði um 7,2 prósent frá maí í fyrra en jókst um 0,6 prósent á föstu verðlagi. Þannig er nokkur munur á því hvort miðað sé við fast verðlag eða breytilegt. „Þó verslun með fatnað og skó hafi aukist lítillega frá maí 2015 á föstu verðlagi dregst velta flokkanna saman á breytilegu verðlagi. Velta fataverslana dróst saman um hálft prósent á breytilegu verðlagi frá maí í fyrra en jókst um 2,9% á föstu verðlagi. Skóverslun minnkaði um 7,2% frá maí í fyrra en jókst um 0,6% á föstu verðlagi. Samkvæmt verðlagsmælingu Hagstofunnar var verðlag fatnaðar í maí síðastliðnum 3,1% lægra en í maí 2015 og verðlag skófatnaðar 7,6% lægra en á sama tíma í fyrra.“

Húsgagnaverslun hefur verið með öflugasta móti á árinu. En hún jókst um 18,3 prósent á milli ára. Ef síðustu sex mánuðir eru bornir saman við sama tímabil ári áður er aukningin um 27%. „Á sama tímabili hefur verðlag nær staðið í stað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×