Fótbolti

Verratti í vandræðum: Reif kjaft og var gripinn með sígó á Snapchat

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marco Verratti var í veseni.
Marco Verratti var í veseni. vísir/getty
Ítalski miðjumaðurinn Marco Verratti, leikmaður Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain, á yfir höfði sér sekt frá félaginu eftir að vera gripinn á samfélagsmiðlinum Snapchat að fá sér sígarettu.

Það var eiginkona brasilíska varnarmannsins Marquinhos sem tók „snapp“ af Verratti að fá sér smók en skjáskot af því hefur farið eins og eldur í sinu um netheima. AS greinir frá.

Ítalska fótboltavefsíða Calciomercato.com greinir frá því að Parísarliðið ætli að sekta Verratti sem kom sér í vandræði um helgina þegar hann var tekinn af velli á 59. mínútu í markalausu jafntefli gegn Marseille í frönsku 1. deildinni um helgina.

Unai Emery, þjálfari PSG, ætlaði að taka í hönd leikmannsins þegar hann gekk af velli en Verratti hafði takmarkaðan áhuga á því. Hann var mjög ósáttur við að vera tekinn af velli.

Verratti byrjaði svo að rífa kjaft á bekknum en myndavélar náðu honum spyrja: „Var ég lélegur? Hvernig var ég lélegur?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×