Viðskipti innlent

Verndartollar þótt innlend framleiðsla anni ekki eftirspurn

Sveinn Arnarsson skrifar
VÍSIR/VILHELM
Árið 2013 var um 77 þúsund svínum slátrað á Íslandi. Sú framleiðsla dugði ekki til að anna eftirspurn neytenda eftir ákveðnum hlutum grísanna, svo sem grísahryggjum og svínasíðum, og þurfti að flytja inn um 440 tonn af svínakjöti. Þrátt fyrir þennan annmarka í innlendri framleiðslu þurfa kjötvinnslur og sláturleyfishafar sem flytja inn þessar afurðir, sem augljóslega er skortur á, að greiða himinháa tolla á þessum vörum.

Verndartollar á innfluttu kjöti eru hugsaðir til þess að vernda innlendan landbúnað. Hins vegar skýtur það skökku við að tollar séu greiddir af kjöti sem skortur er á í landinu og þegar innlendur landbúnaður getur ekki annað eftirspurn íslenskra neytenda.

Einnig hafa margoft heyrst mótbárur gegn verndartollum á svínakjöt þar sem hægt sé að fá ódýrara kjöt frá öðrum Evrópulöndum, neytendum til hagsbóta. Þar sem svínabændur séu þetta fáir skjóti skökku við að þeir njóti vafans en ekki neytandinn.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd, er á þeirri skoðun að tollar eigi ekki að vera á kjöt sem sé ekki til á Íslandi. Hann segir grundvallarafstöðu sína vera þá að ef íslenskur landbúnaður eða iðnaður yfirhöfuð annar ekki innlendri eftirspurn þá eigi að flytja vöruna inn án þess að tolla hana upp í rjáfur. „Það hefur enginn Íslendingur drepist á ferðum sínum erlendis við það að borða svínakjöt,“ segir Vilhjálmur.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, tekur í sama streng og segir þessa umræðu ekki nýja af nálinni. „Við höfum margítrekað bent á þessa hluti og gerum það aftur. Þetta hefur lengi verið baráttumál okkar,“ segir Andrés. 

„Við erum þeirrar skoðunar að þegar innlend framleiðsla getur ekki annað eftirspurn eigi að flytja inn vöruna tollfrjálsa..“ 

Andrés bendir einnig á að sama öryggiskerfi sé á Íslandi og í löndum Evrópusambandsins. Kjöt sem framleitt er í þeim löndum uppfylli alla innlenda staðla. „Neytendur og kaupendur eiga að vera í vissu um það að vara sem er talin góð annars staðar í Evrópu er einnig nógu góð hér heima,“ segir Andrés.

Haraldur Benediktsson
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ósammála flokksbróður sínum og telur tollana vera til hagsbóta fyrir neytendur. „Við getum ekki gefið tollana bara frjálsa og leyft óheftan innflutning á svínakjöti. Þetta er alveg eins og við getum ekki leyft óheftan innflutning á blaðamönnum eða verkamönnum frá öðrum löndum Evrópu á því verði sem tíðkast þar. Ef það væri leyft þá færi ekki vel fyrir innlendum markaði,“ segir Haraldur.


Tengdar fréttir

Stór hluti beikons á Íslandi úr innfluttum svínasíðum

Nærri helmingur beikons á Íslandi er úr innfluttum svínasíðum. Um 300 tonn af svínasíðum voru flutt inn til landsins í fyrra til að anna eftirspurn eftir beikoni. Sláturfélag suðurlands upprunamerkir ekki beikonið, líkt og aðrar

Búrfell bara með íslenskt beikon

Aukin kolvetnisneysla Íslendinga hefur aukið eftirspurn eftir beikoni. Mikið flutt inn af svínakjöti en Búrfell framleiðir eingöngu íslenskt beikon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×