Innlent

Verktakar byggja mun hraðar í Noregi en hér

Sæunn Gísladóttir skrifar
Framleiðni íslenskra iðnaðarmanna er meiri í Noregi en á Íslandi.
Framleiðni íslenskra iðnaðarmanna er meiri í Noregi en á Íslandi. vísir/gva
Iðnaðarmenn í Noregi eru að jafnaði allt að 23 stundir að byggja hvern fermetra í íbúðarhúsnæði, á meðan þeir íslensku eru allt að 31 klukkustund með sama verkið. Íslendingar eru því um 25 prósent lengur með verkið þegar þeir vinna það á Íslandi en í Noregi. Þetta kom fram á Þjóðarspeglinum í Háskóla Íslands síðasta föstudag. Þórólfur Matthíasson hagfræðingur kynnti grein sem hann, ásamt Ævari Rafni Hafþórssyni, vann upp úr meistararitgerð Ævars.

Þórólfur Matthíasson, hagfræðingur.Mynd/Kristinn Ingvarsson
Hugmyndin að rannsókninni kviknaði í ljósi þess að margir íslenskir iðnaðarmenn fóru til Noregs upp úr hruni. Þar voru þeir eftirsóttir starfskraftar og fengu sömu laun og þarlendir. „Framleiðnimunur á milli Íslands og Noregs getur því ekki verið vanþekkingu eða dugnaðarmun að kenna. Þó virðast íslenskir iðnaðarmenn auka framleiðni við það að fara til Noregs,“ sagði Þórólfur.

Í erindinu kom fram að auðvelt væri að bera saman framleiðnina í ljósi þess að byggingarreglugerðir eru mjög sambærilegar og að hlutfall framkvæmdakostnaðar og efniskostnaðar í heildarkostnaði sé svipaður í löndunum tveimur.

Þórólfur sagði að það sem helst skýrði muninn væri skipulagsvandi á vinnustað. „Þegar verið er að steypa upp eitthvað staðlað er minni framleiðnimunur, en þegar kemur að innanhússfráganginum er munurinn meiri. Ævar segir að skýringin sé sú að skipulagið á innanhússfráganginum sé miklu lakari á Íslandi en í Noregi,“ sagði hann. Innanhússfrágangur tekur mun lengri tíma á Íslandi og nemur 26,2 prósentum af heildarlaunum, samanborið við 19,1 prósent í Noregi.

Þórólfur benti á að skortur á skipulagi væri vegna skorts á fjármagni. Íslenskir byggingaverktakar hefðu ekki sama fjármagn og þeir norsku til að klára verkið áður en byrjað væri að hleypa íbúum inn. Íbúðir væru seldar hér og þar í íbúðar­húsnæði í einu og því ekki hægt að vinna allt verkið í einu. „Þarna er möguleiki, ef menn koma sér saman um betri leið til að skipuleggja framkvæmdirnar, og afhendingu, að auka framleiðni í byggingariðnaði á Íslandi einhvers staðar á stærðarbilinu 25 til 30 prósent sem er umtalsvert. Það er klárlega tækifæri á markaðnum til að gera betur.“

Á fundinum kom einnig fram að aðrir þættir spiluðu inn í framleiðni, svo sem óstöðugleiki í hagkerfinu, starfsmannaskortur, tæknistig og byggingaraðferðir.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×