Innlent

Verkföll hafa víðtæk áhrif á landbúnað, sjávarútveg og matvælaframleiðendur

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Verkföll félagsmanna BHM, sem hefjast í fyrramálið, munu hafa víðtæk og alvarleg áhrif á matvælaframleiðendur, landbúnað og sjávarútveg, sem og á inn- og útflutning matvæla. Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, segir að tjónið gæti orðið gríðarlegt fyrir þjóðarbúið. 

Dýralæknar, náttúrufræðingar og háskólamenn á næringarsviði Matvælastofnunnar munu á morgun fara í ótímabundið verkfall og bætast þannig í hóp félagsmanna BHM sem beitt hafa verkfallsvopninu í yfirstandandi  kjaraviðræðum.

Matvælastofnun verður fyrir verulegum áhrifum vegna verkfallsins þar sem 50 af 85 starfsmönnum leggja niður störf. Þetta snertir matvælaeftirlit, framleiðslu búfjárafurða, allt eftirlit með dýraheilbrigði og velferð, auk víðtækra áhrifa á inn- og útflutning matvælaafurða.  Ekki verður hægt að flytja út matvæli þar sem ekki verða gefin út heilbrigðisvottorð á meðal verkfallið stendur yfir, en nú þegar hefur verið sótt um undanþágur vegna þess. 

„Við erum með undanþágubeiðnir á borðinu útaf útflutningi á mjólkurafurðum, við vitum að þetta mun hafa mikil áhrif á allan útflutning á búfjárafurðum, og fiskafurðir til tiltekinna landa eins og Rússlands og tollabandalag Rússa. Þarna erum við að tala um geysileg verðmæti. Ef að undanþágunefndin heimilar ekki dreifingu á kjöti getur það strax haft áhrif á markaðinn. Áhrifin eru miklu vítækari held ég heldur en að fólk gerir sér grein fyrir,“ segir Jón Gíslason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×