Innlent

Verkfall í háloftunum

Þorgeir Helgason skrifar
Flugfreyjur hjá Flugfélagi Íslands hafa boðað til verkfallsaðgerða sem hefjast þann 27. janúar.
Flugfreyjur hjá Flugfélagi Íslands hafa boðað til verkfallsaðgerða sem hefjast þann 27. janúar. Vísir/GVA
„Við erum ekkert sérlega bjartsýn á að það takist að semja áður en það kemur til verkfallsaðgerða,“ segir Sturla Óskar Bragason, varaformaður Flugfreyjufélags Íslands. Félagar í Flugfreyjufélagi Íslands samþykktu á miðvikudag að boða til verkfallsaðgerða ef ekki takist að semja á næstum dögum í kjaradeilu flugfreyja við Flugfélag Íslands. Um 70 prósent greiddu atkvæði með aðgerðinni en rúm 25 prósent gegn henni.

Flugfreyjur hjá Flugfélagi Íslands hafa staðið í kjaradeilu síðan á gamlárs­dag 2015. Í tvígang hafa samningar náðst en báðir voru felldir í atkvæðagreiðslu. Flugfreyjur hafa því verið samningslausar í rúmt ár.

Náist ekki að semja á næstu dögum mun þriggja daga verkfall hefjast að morgni laugardagsins 27. janúar. Þá er gert ráð fyrir ótímabundnu verkfalli frá morgni áttunda febrúar. Verkfallið hefur í för með sér að allt innanlandsflug Flugfélags Íslands fellur niður ásamt flugi félagsins til Skotlands og Grænlands.

Samninganefndir Flugfreyjufélagsins og Flugfélags Íslands munu funda í dag hjá ríkissáttasemjara.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Hér fyrir ofan misritaðist dagsetning hins ótímabundna verkfalls. Það hefur verið leiðrétt. Beðist er velvirðingar á mistökunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×