Innlent

Verkfall hefði áhrif á starfsemi spítala

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar
Fyrirhugað verkfall Háskólakennara mun hafa alvarleg áhrif á starfsemi Landspítalans
Fyrirhugað verkfall Háskólakennara mun hafa alvarleg áhrif á starfsemi Landspítalans Fréttablaðið/Vilhelm
Fyrirhugað verkfall háskólakennara mun hafa alvarleg áhrif á starfsemi Landspítalans ef af verður.

Hátt í 50 kandídatsnemar í læknisfræði geta ekki hafið störf á Landspítalanum á tilsettum tíma, verði af verkfallinu, sem myndi þýða skort á læknum innan spítalans í sumar.

Pétur Sólmar Guðjónsson, fulltrúi 6. árs nema í stjórn Félags læknanema, segir bæði nemendur og kennara uggandi yfir málinu.

Pétur Sólmar Guðjónsson
„Forsenda þess að komast inn á kandídatsárið og hefja störf hjá spítalanum er að ljúka lokaprófinu. Við erum 50 kandídatsnemar og flest okkar gera ráð fyrir að hefja störf strax í júní,“ segir Pétur. 

Ef prófin frestast þá frestast ráðningar, ef af verkfalli verður verða engin lokapróf.

Stjórn Félags læknanema hefur verið í sambandi við forseta læknadeildar í þeirri von að finna upp einhver neyðarúrræði til að grípa til ef þessi staða kemur upp. 

„Þetta verður stór biti fyrir samfélagið enda hefur verkfallið áhrif á störf lækna, hjúkrunarnema, lífeindafræðinga og sjúkraliða svo dæmi séu nefnd,“ segir Pétur.

Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskólans, tekur undir áhyggjur læknanema og segir stöðuna grafalvarlega.

Magnús Karl Magnússon segir stöðuna krítíska bæði fyrir nemendur og spítalannFréttablaðið/vilhelm
„Staðan er krítísk fyrir nemendur og fyrir spítalann. Við í háskólanum erum að leita leiða til að útskrifa þessa nemendur en við höfum því miður engin svör,“ segir Magnús.

„Við verðum að fara eftir öllum reglum sem gilda um verkföll í samráði við yfirmenn háskólans svo það er ekki mögulegt að læknar hefji störf án þess að þreyta prófið. Prófið er forsenda þess að útskrifast frá Læknadeild og geta hafið störf sem læknakandídat,“ segir Magnús.

„Við í læknadeild viljum koma á framfæri hvatningu til yfirvalda um að gera sér grein fyrir alvarleika málsins. Ef háskólakennarar leggja niður störf á prófatíma eru ekki aðeins hagsmunir einstaklinga í húfi og hvort þeir fái prófskírteini, heldur reiðir þjóðfélagið sig á að útskrifa fólk með háskólagráður. Útskriftarnemar eru mikilvægur mannafli fyrir heilbrigðiskerfið.“

Boðað hefur verið til samráðsfundar fulltrúa Landspítala og háskólans eftir tvær vikur en þá verður staðan rædd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×