Enski boltinn

Verður Zlatan áfram hjá United? „Við erum að tala saman“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stuðningsmenn Manchester United vilja halda Zlatan.
Stuðningsmenn Manchester United vilja halda Zlatan. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic, framherji Manchester United, hefur staðfest að hann er í viðræðum við enska félagið um framlengingu á samningi sínum en hann lofar ekki að vera áfram eftir að tímabilinu lýkur.

Svíinn hefur farið á kostum á sinni fyrstu leiktíð á Old Trafford en hann er búinn að skora 26 mörk í öllum keppnum eftir komu sína frá Paris Saint-Germain.

Zlatan skrifaði undir eins árs samning síðasta sumar en er nú orðaður við félög eins og Napoli á Ítalíu og Los Angeles Galaxy í Bandaríkjunum. Honum býðst að vera að minnsta kosti eitt ár til viðbótar en ákvörðun hefur ekki verið tekin.

„Sjáum til hvað gerist. Við erum að tala saman,“ sagði Zlatan þegar hann kynnti nýja rakspírann sinn. „Ég er með klásúlu sem gerir mér kleift að spila annað tímabil. Ég vil gera stóra hluti á meðan ég er leikmaður Manchester United. Sjáum bara til hvað gerist. Það er enn mikill tími til stefnu.“

Zlatan er mjög ánægður með veru sína á Old Trafford en hann segir Manchester United vera eitt stærsta félag heims.

„Ég nýt þess að vera hjá svona frábæru félagi. Það er engin spurning. Þetta er eitt stærsta félag heims með frábæran knattspyrnustjóra,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×