Innlent

Verður í lagi næstu 7 til 10 daga

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Sigurður B. Sigurðsson eigandi Hanans.
Sigurður B. Sigurðsson eigandi Hanans. Fréttablaðið/Ernir
„Það er verið að þíða kjöt fyrir okkur,“ segir Sigurður B. Sigurðsson, eigandi veitingastaðarins Hanans, þar sem á boðstólum er kjúklingakjöt.

Sem kunnugt er stöðvaðist öll slátrun í verkfalli dýralækna og því kjötskortur fyrir dyrum.

Sigurður er tekinn tali í Fréttablaðinu í dag í tengslum við umfjöllun um áhrif yfirstandandi verkfallsaðgerða á daglegt líf fólks.

„En enn þá er þetta í lagi og verður það hugsanlega næstu sjö til tíu daga,“ segir Sigurður, sem segist enn sem komið er ekki hugsa mikið lengra en fram í þann tíma sem hann er búinn að tryggja veitingastað sínum hráefni.

„Þetta er eins og hjá öllum hinum, það er bara verið að vinna úr kistunni, en það náttúrlega minnkar í henni.“

Að þeim tíma liðnum segir Sigurður menn verða að leita annarra lausna.

„Af því við erum ekki pólitíkusar og ráðum ekki við þetta.“ Þá verði bara að bjóða grænmetisfæði eða eitthvað ámóta til að halda rekstrinum gangandi.

„En ég er bjartsýnismaður og trúi ekki öðru en að þeir klári þetta mál á einhvern hátt. Þegar allir eru að skaðast þá hljóta menn að vilja komast niður á einhverja lausn.“

Hann sé hins vegar bara þriðji aðili í launadeilu BHM og ríkisins og fylgist með þróun mála á hliðarlínunni og bregðist við framvindunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×