Viðskipti innlent

Verðskrá Landsnets hækkar til almennings en ekki stórnotenda

Sveinn Arnarsson skrifar
Landsnet er fyrirtæki í eigu ríkisins sem annast flutningskerfi raforku og dreifir henni til notenda.
Landsnet er fyrirtæki í eigu ríkisins sem annast flutningskerfi raforku og dreifir henni til notenda. vísir/vilhelm
Landsnet hefur ákveðið að hækka verð til dreifiveitna um þrettán prósent frá 1. desember næstkomandi en á sama tíma mun verð til stórnotenda standa í stað. Ef dreifiveitur setja hækkunina út í verðlag mun rafmagnsreikningur almennings hækka en álverin borga enn það sama fyrir dreifingu orkunnar til sín.

Björt Ólafsdóttir, nefndarmaður í atvinnuveganefnd þingsins, segir þessa hækkun vekja hjá sér furðu. „Nýlegar fréttir hafa sagt okkur að heimilin standa nú þegar undir mestum tekjum orkufyrirtækja, en nota þó aðeins brot af orkunni. Svo er Landsnet að gera þetta núna og enn mun halla á almenning,“ segir Björt.

Björt Ólafsdóttirvísir/vilhelm
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir það ekki þannig að Landsnet geti breytt gjaldskránni að vild, heldur séu breytingar á gjaldskrá grundvallaðar á ákvörðunum Orkustofnunar.

„Fyrirtækinu eru úthlutaðar ákveðnar tekjur og umhverfi til að afla þeirra. Tekjugrunni Landsnets er skipt í tvennt, stórnotendur og dreifiveitur. Ef leyfð arðsemi til stórnotenda við gerð áætlunar fyrir árið er til dæmis hærri en niðurstaða Orkustofnunar ákvarðar varðandi arðsemishlutfall, þá þarf að lækka gjaldskrána. Ef þessu er öfugt farið, þá þarf að hækka gjaldskrána. Það sama gildir um dreifiveitur,“ segir Steinunn.

Engin tilkynning er um fyrirhugaðar breytingar á verðskrá Landsnets inni á heimasíðu fyrirtækisins. Steinunn segir það eiga sér eðlilegar skýringar og ekki um neinn feluleik að ræða. „Landsnet hefur sex vikna frest til að tilkynna Orkustofnun um fyrirhugaðar breytingar á gjaldskránni. Orkustofnun hefur síðan þrjár vikur til að skoða forsendur og rökstuðning og samþykkir eða hafnar breytingunni að þeim fresti liðnum. Okkur ber hins vegar skylda til að upplýsa okkar viðskiptavini, sem eru dreifiveiturnar, sem allra fyrst um fyrirhugaðar breytingar.“

Björt furðar sig á því af hverju það skuli kosta meira að dreifa orku til dreifiveitna en til stórnotenda, svo sem álvera, kísilvera og járnblendiverksmiðja. „Það er óþolandi að skattgreiðendur borgi ekki bara með stóriðjustefnunni, bæði í formi greiddra skatta sem mengandi stóriðja fær hins vegar afslætti á, heldur eigi einnig að auka meðgjöfina með þessu móti líka. Nú hefði ég haldið að dreifing á megavatti til dreifiveitna kostaði það sama og dreifing á megavatti til stórnotenda. Hvað gerir það að verkum að þau hækka á almenning í gegn um dreifiveitur en ekki stórnotendur?“ spyr Björt.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×