Lífið

Verðlaunasöngvarar á hádegistónleikum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Gunnar, Antonia og Ari í tröppum Hafnarborgar.
Gunnar, Antonia og Ari í tröppum Hafnarborgar. Mynd/Áslaug Íris Friðjónsdóttir
„Við ætlum að syngja ítalskar aríur úr hinum ýmsu óperum eftir Verdi, Donizetti og Puccini,“ segir Gunnar Björn Jónsson, annar tveggja tenóra sem láta ljós sitt skína á hádegistónleikum Antoniu Hevesi í Hafnarborg í Hafnarfirði í dag klukkan 12.

„Já, við sendum Antoniu óskalista og hún valdi lögin af honum,“ útskýrir hinn tenórinn, Ari Ólafsson. Báðir hlutu þeir verðlaunasæti í söngkeppninni Vox Domini sem haldin var fyrir klassíska söngvara og nemendur í slíkum söng, í janúar síðastliðnum af félagi íslenskra söngkennara. Verðlaunin voru meðal annars þau að koma fram á þessum tónleikum.



Ari er nemandi Bergþórs Pálssonar í Söngskólanum í Reykjavík og Gunnar Björn er nýlega kominn frá Ítalíu úr tveggja ára námi í söng.



Mörgum er í fersku minni þegar Ari kom fram með Sissel Kyrkjebo­ á tónleikum hennar í Hörpu á síðasta ári. Það var reyndar í annað sinn því fyrst söng hann með henni á Frostrósatónleikum 2011.

Ari lék Ólíver í samnefndum söngleik í Þjóðleikhúsinu árið 2009-2010 og ári síðar sjö hlutverk í söngleiknum Galdrakarlinn í Oz í Borgarleikhúsinu. Hann kveðst orðinn mjög spenntur fyrir tónleikunum í dag.

„Já, það er heiður að taka þátt í þessari rótgrónu hádegistónleikaröð sem hún Antonia er með í Hafnarborg,“ segir Gunnar Björn sem er Akureyringur og hefur haldið nokkra tónleika í Hofi, við ýmis tækifæri, meðal annars á 150 ára afmæli Akureyrar.

Hann hefur verið með í ýmsum uppfærslum á vegum Söngskóla Sigurðar Demetz, þar sem hann var nemandi Kristjáns Jóhannssonar. Gunnar Björn hefur einnig tekið þátt í tveimur sönggjörningum með listamanninum Ragnari Kjartanssyni í New York og í Zürich.

Tónleikarnir hafa yfirskriftina Tilfinningaríkir tenórar. Þeir hefjast kl. 12, standa yfir í um hálfa klukkustund og eru öllum opnir meðan húsrúm leyfir.

Húsið verður opnað kl. 11.30.



 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. mars 2017.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×