Viðskipti innlent

Verðlagseftirlit ASÍ: Matarkarfan ódýrust í Bónus

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill munur var á hæsta og lægsta verði milli verslana, en í um helmingi tilvika var um 10 til 30 prósent verðmun að ræða.
Mikill munur var á hæsta og lægsta verði milli verslana, en í um helmingi tilvika var um 10 til 30 prósent verðmun að ræða. Vísir/Vilhelm
Bónus við Kjarnagötu á Akureyri var með lægsta verð í um helmingi tilvika í nýrri verðkönnun Verðlagseftirlits ASÍ í lágvöruverðsverslunum, þjónustuverslunum og stórmörkuðum víðsvegar um land.

Iceland Engihjalla var oftast með hæsta verðið eða í um fjörutíu prósent tilvika.

Í frétt á vef ASÍ segir að mikill munur hafi verið á hæsta og lægsta verði milli verslana, en í um helmingi tilvika var um 10 til 30 prósent verðmun að ræða. Mestur hafi verðmunurinn verið 102 prósent. Minnstur verðmunur var í vöruflokknum osti, viðbiti og mjólkurvörum.

Flestar vörur til í Fjarðarkaupum

„Flestar vörurnar voru til í verslun Fjarðarkaupa eða 115 af 121, næstflestar í verslun Iceland eða 109. Fæstar vörurnar í könnuninni voru fáanlegar í Samkaupum-Úrvali á Ísafirði eða 77 af 121, þar á eftir kom Krónan Nóatúni sem átti 92 vörur.

Þegar borin eru saman verð á milli verslananna á þeim vörutegundum sem verðlagseftirlitið skoðaði var Iceland með hæsta verðið á 51 vörum af 121, Samkaup-Úrval var 25 sinnum hæst, Hagkaup 22 og Víðir Skeifunni 16 sinnum. Bónus var með lægsta verðið á 67 vörum af af 121, Fjarðarkaup 19 sinnum lægst, Krónan 16 og Nettó Mjódd 12 sinnum.

Minnstur verðmunur í könnunni var á spelt flatkökum frá Ömmubakstri sem voru dýrastar á 242 kr. hjá Fjarðarkaupum en ódýrastar á 229 kr. hjá Krónunni, verðmunurinn var 6%. Mestur verðmunur að þessu sinni var á jöklasalati sem var ódýrast á 198 kr./kg. hjá Krónunni en dýrast á 399 kr./kg. hjá Hagkaupum, verðmunurinn 201 kr. eða 102%.

Minnstur verðmunur er í vöruflokknum osti, viðbiti og mjólkurvörum

Minnstur verðmunur í mælingunni er í vöruflokknum osti, viðbiti og mjólkurvörum en hann var samt umtalsverður og náði þegar mest var ríflega 25%. Sem dæmi má nefna 250 gr. af MS sveppasmurosti sem var dýrastur á 440 kr. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrastur á 351 kr. hjá Nettó, verðmunurinn er 25%. Þá var 15% verðmunur á 500 gr. af Húsavíkurjógúrti með peru og vanillu sem var dýrust á 258 kr. hjá Hagkaupum en ódýrust á 225 kr. hjá Víði. Verðmunurinn var öllu minni á Stoðmjólk sem var dýrust á 120 kr. hjá Samkaupum-Úrvali og Hagkaupum en ódýrust á 112 kr. hjá Fjarðarkaupum sem gerir 7% verðmun.

Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að mikill verðmunur var á ORA sardínum í olíu sem voru dýrastar á 379 kr. hjá Iceland en ódýrastar á 267 kr. hjá Bónus, verðmunurinn var 112 kr. eða 42%. Kíló af vatnsmelónu var dýrast á 299 kr. hjá Hagkaupum en ódýrast á 149 kr./kg. hjá Nettó sem gerir 101% verðmun. Orkudrykkurinn Red Bull 250 ml.  var ódýrastur á 195 kr. hjá Bónus en dýrastur á 249 kr. hjá Iceland, sem er 28% munur,“ segir í fréttinni.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Kjarnagötu, Krónunni Nóatúni, Nettó Hverafold, Iceland Engihjalla, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Samkaupum-Úrvali Ísafirði, Hagkaupum Seltjarnarnesi og Víði Skeifunni.

Nánar má lesa um verðkönnunina á vef ASÍ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×