Viðskipti innlent

Verðlag hjaðnaði um hálft prósent milli mánaða

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Eldsneytisverð hefur lækkað og vegna verðþróunar á erlendum mörkuðum er útlit fyrir að það gæti lækkað enn meira í næsta mánuði.
Eldsneytisverð hefur lækkað og vegna verðþróunar á erlendum mörkuðum er útlit fyrir að það gæti lækkað enn meira í næsta mánuði. Fréttablaðið/Vilhelm
Verðbólga miðað við síðustu tólf mánuði stendur í 1,0 prósenti samkvæmt nýjustu mælingu Hagstofu Íslands.

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,52 prósent á milli október og nóvember. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs lækkað um 0,5 prósent sem Hagstofan segir að jafngildi 2,0 prósenta verðhjöðnun á ári.

Í umfjöllun greiningardeildar Arion banka er mælingin sögð koma verulega á óvart, en þar á bæ hafði því verið spáð að verðlag myndi standa í stað. Bent er á að ársverðbólga hafi ekki mælst lægri síðan í október 1998.

Fram kemur í umfjöllun Hagstofunnar að lækkun á verðlagi í mánuðinum megi að mestu rekja til lækkunar á flugfargjöldum um 17,3 prósent og eldsneyti um 2,6.

Þá lækkuðu einnig fleiri undirliðir vísitölunnar og segir greiningardeild Arion banka þar helst hafa komið á óvart lækkun á verði matarkörfu, auk tómstunda og menningar.

„Helsta skýringin á lækkun liðarins tómstundir og menning er að finna í lækkun á verði sjónvarpstækja vegna væntanlegs afnáms vörugjalda,“ segir í umfjölluninni.

Í umfjöllun Alþýðusambandsins er 0,1 prósents lækkun á húsnæðislið vísitölunnar, sem leitt hafi hækkun verðlags undanfarið ár, einnig sögð óvænt, en hún skýrist af lítilsháttar lækkun á markaðsverði húsnæðis.

„Föt og skór er eini liður vísitölunnar sem sker sig úr að þessu sinni og hækkar um 1,1 prósent frá fyrra mánuði,“ segir þar.

Greining Íslandsbanka segir um innflutta verðhjöðnun að ræða vegna styrkingar krónu, verðlækkunar á eldsneyti og öðrum hrávörum á heimsmarkaði og verðstöðnunar á innfluttum smásöluvarningi.

„Verðbólguhorfur til skamms tíma eru góðar og raunar gæti verðbólga farið undir [1,0 prósents] neðri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í desember.“

Í bráðabirgðaspám greiningardeilda Íslandsbanka og Arion banka er gert ráð fyrir 0,2 og 0,3 prósenta hækkun vísitölu neysluverðs í næsta mánuði. Íslandsbanki gerir ráð fyrir að flugfargjöld hækki töluvert í mánuðinum, en á móti gæti eldsneytisverð lækkað nokkuð.

Í spá Arion banka er gert ráð fyrir að verðbólgan standi í 1,2 prósentum í febrúar á næsta ári og útlit sé fyrir að hún verði undir markmiði Seðlabankans vel fram á næsta ár.

„Gangi spáin eftir yrði febrúar þrettándi mánuðurinn í röð þar sem verðbólgan verður undir verðbólgumarkmiði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×