Viðskipti innlent

Verðlækkanir hjá Zöru: Reynt að halda lífi í fataverslun á Íslandi

ingvar haraldsson skrifar
Ingibjörg Sverrisdóttir, rekstarstjóri Zöru, segir verslunarumhverfið hér á landi erfitt.
Ingibjörg Sverrisdóttir, rekstarstjóri Zöru, segir verslunarumhverfið hér á landi erfitt. Vísir/pjetur
„Þetta er mikilvægt að við getum veitt lámarksþjónustu í verslun hér á Íslandi,“ segir Ingibjörg Sverrisdóttir, rekstarstjóri Zöru á Íslandi. Verð í verslunum Zöru hér á landi var nýverið lækkað um á milli 11 og 25 prósent í kjölfar samninga við Inditex, eiganda vörumerkisins Zara.

„Fataverslun í stóra samhenginu hefur dregist verulega mikið saman. Samkeppnin er ekki bara kaupmaðurinn við hliðina á heldur verslunarferðir til útlanda. Stóra ástæðan fyrir því að við erum að fara í þessar breytingar er að reyna að fá svo lítið líf í þetta hérna,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg segir að breytingin hafi komið til í kjölfar lækkunar á virðisaukaskatti um síðustu áramót, úr 25,5 prósentum í 24 prósent. „1,5 prósenta breyting á virðisaukaskatti er ekki neitt neitt í raun og veru en við tókum þá ákvörðun að fara bara rausnarlega í þetta fyrst við vorum að gera breytingar á annað borð,“ segir Ingibjörg. Hún segir Zöru á Íslandi taka á sig helming verðlækkunarinnar og Inditex hinn helminginn. Ingibjörg segir verðið í verslunum Zöru hér á landi sé nú sambærilegt við verðið á Englandi.



Mikilvægt að þurfa ekki að fara í flugvél til að kaupa gallabuxur

Könnun sem Hagar, eigandi Zöru gerði árið 2012 gaf til kynna að 40% fatakaupa Íslendinga ættu sér stað á erlendri grundu. Hlutfallið var enn hærra í barnafötum eða um helmingur.

Ingibjörg segir brýnt að stjórnvöld bregðist við og reyni að bæta aðstæður fataverslana hér á landi. „Að sjálfsögðu væri kjörið að okkur væri búin samkeppnisstaða eins og gerist í löndunum í kringum okkur. Bæði þessi tvítollun eins og hún er kölluð þar sem vara framleidd utan Evrópusambandsins er tolluð þegar hún er flutt til Evrópu og aftur þegar hún kemur til landsins. Svo gerir þessi hái virðisaukaskattur umhverfið einnig snúið,“ segir Ingibjörg.

„Það er öllum í hag ef við getum vakið verslun hérna heima til lífsins. Það er mikilvægt að við getum haft þessa verslun hér á landi þannig að maður þurfi ekki að bregða sér í flugvél ef manni vantar gallabuxur,“ segir Ingibjörg.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×