Viðskipti innlent

Verðhækkanir vegna kjarasamninga

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Neytendasamtökin hafa orðið vör við verðhækkanir eftir undirritun nýrra kjarasamninga. Samtökunum hafa borist fjöldi tilkynninga og eru hækkanirnar allt að tíu prósent.

Nýir kjarasamningar voru undirritaðir á almennum vinnumarkaði í lok maí. Neytendasamtökunum hafa þegar borist fjöldi tilkynninga um að fyrirtæki séu farin að hækka vöruverð sitt til að bregðast við nýjum kjarasamningum. Þuríður Hjartardóttir framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

„Við höfum verið að fylgjast með og fáum upplýsingar um tilkynningar frá birgjum til verslana. Þær koma núna í stríðum straumi og þetta eru yfirleitt hækkanir sem eru að taka gildi núna í byrjun júlí og lok júní,“ sagði Þuríður Hjartardóttir.

„Þó að verðbólga hafi ekki verið nema eitt og hálft prósent þá kemur örugglega í ljós núna í lok júlí, breyting á því. Við birtum lista yfir allar tilkynningar frá birgjum á heimasíðunni okkar. Það eru flestir, mjög margir allavega, að tilkynna núna eitt upp í tíu prósent hækkun og allt þar á milli.“

Þuríður segir að Neytendasamtökin hafi leitað skýringa á hækkununum og þar koma nýir kjarasamningar oft sem skýring.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×