Viðskipti innlent

Verðbólgumarkmiði Seðlabankans náð

Bjarki Ármannsson skrifar
Hækkun á matvöruverði mældist 0,7 prósent í febrúar. Verðbólga stendur nú í 2,1 prósenti.
Hækkun á matvöruverði mældist 0,7 prósent í febrúar. Verðbólga stendur nú í 2,1 prósenti. Vísir/Vilhelm
Verðbólgumarkmiði Seðlabankans í febrúar hefur verið náð og er útlit fyrir að markmiðið haldist út árið. Verðbólga mælist nú 2,1 prósent og hefur ekki mælst minni síðan í febrúar árið 2011.

Þetta kemur fram í frétt Greiningardeildar Íslandsbanka frá því í gær. Hækkun vísitölu neysluverðs í þessum mánuði nam 0,67 prósentum sem er langminnsta hækkun í febrúarmánuði í fimm ár. Hækkunin er auk þess nokkuð undir spám greiningaraðila, sem flestir spáðu 0,7 til 0,8 prósenta hækkun.

Lítil hækkun vísitölunnar í febrúar er meðal annars talin stafa af lækkun markaðsverðs á íbúðarhúsnæði og verðlækkun matvara, en lækkun matvöruverðs milli mánaða hefur ekki mælst minni síðan í ágúst 2012. Einnig voru áhrif útsöluloka mun vægari en undanfarin ár og skýringin talin styrking krónunnar undanfarna mánuði.

Sé húsnæði undanskilið í vísitölunni, mælist verðbólga 0,8 prósent og hefur ekki verið minni á þeim kvarða síðan í ágúst 2007.

Greiningardeild segir útlit fyrir að verðbólga haldist við markmiðið það sem eftir er árs. Rætist sú spá yrði það í fyrsta sinn undanfarinn áratug sem verðbólgumarkmið Seðlabankans næst í svo langan tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×