Innlent

Verðbólgudraugurinn handan við hornið

Heimir Már Pétursson skrifar
„. Nú er það í raun og veru millitekjuhópurinn sem segir: Nú er komið að okkur. Hann sættir sig ekki við áframhaldandi áherslu á lægstu launin einvörðungu,“ segir Þorsteinn.
„. Nú er það í raun og veru millitekjuhópurinn sem segir: Nú er komið að okkur. Hann sættir sig ekki við áframhaldandi áherslu á lægstu launin einvörðungu,“ segir Þorsteinn.
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir öruggt að verðbólga muni aukast verulega verði farið kröfum um tugprósenta hækkun launa og það geti tekið langan tíma að vinna bug á þeirri verðbólgu. Ekki verði hægt að ná árangri í samningum nema allir aðilar komi sameiginlega að samningaborðinu en ekki tvístraðir í allar áttir eins og nú.

Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að þær deilur sem nú standi yfir á almennum og opinberum vinnumarkaði snerti allan þorra vinnumarkaðarins eða um 120 til 130 þúsund manns. Hver sem niðurstaða samninga verði muni hún hafa mikil áhrif.

Hleypi samningar verðbólgunni af stað gæti orðið mjög erfitt að hemja hana aftur. Síðast þegar þetta hafi gerst árið 1974 hafi tekið 15 ár að ná tökum á mikilli verðbólgu með þjóðarsáttarsamningunum.

„Við höfum undanfarin átta ár verið í samfelldu átaki um sérstaka hækkun lægstu launa. Nú er það í raun og veru millitekjuhópurinn sem segir: Nú er komið að okkur. Hann sættir sig ekki við áframhaldandi áherslu á lægstu launin einvörðungu,“ segir Þorsteinn. Undanfarin ár hafi tekist mjög vel að auka almennan kaupmátt í landinu.

Hins vegar liggur í loftinu að verkalýðsfélög og sambönd með tugþúsundir félagsmanna sættir sig ekki við 3,5 prósenta tilboð Samtaka atvinnulífsins og ríkisins og verkföll blasa við.

Verða Samtök atvinnulífsins og ríkisvaldið ekki bara að horfast í augu við það og fara að tala um einhverjar aðrar tölur en 3,5?



„Ég trúi því ekki að það sé ásetningur verkalýðshreyfingarinnar að hrinda hér verðbólgu af stað á nýjan leik. Það er raunar ótrúlegt ábyrgðarleysi því það er öllum ljóst beggja vegna borðsins að slíkur samningar myndu auka verðbólgu verulega,“ segir Þorsteinn.

Miðað við lægstu kröfurnar upp á um 20 prósenta launahækkun muni verðbólga aukast strax á þessu ári. Aðilar á vinnumarkaðnum hljóti í þessari stöðu að freista þess að finna aðrar lausnir sem grafi ekki undan þeim árangri sem náðst hafi frá upphafi kreppunnar.

„Það eru til ýmsar aðrar leiðir til að halda áfram sérstakri uppbyggingu, eins og við höfum bent á með uppstokkun launakerfa og þá með áherslu á aukna framleiðni og styttingu vinnutímans,“ segir Þorsteinn.

Staðan í kjaramálunum er flóknari en hún hefur verið í áratugi þar sem nánast er verið að semja í öllum hornum og erfitt að fá yfirsýn á heildina, hvað þá að leiða alla samninga að þeirri niðurstöðu sem Samtök atvinnulífsins tala fyrir.

„Nei, og ég held að það sé alveg ljóst að slík lausn verður ekki leidd fram öðruvísi en menn komi sameiginlega að henni. Við erum einfaldlega komin á endastöð ætli hvert félag fyrir sig að semja í sínu horni. Það er nauðsynlegt að fara að draga hér saman þræði og sjá hvort við getum ekki smíðað heilsteypta lausn sem skilar okkur umtalsverðum árangri í kaupmætti en um leið ver þann árangur sem við höfum náð varðandi lága verðbólgu,“ segir Þorsteinn.

Heldur þú að það sé einhver möguleiki á að draga fólk sameiginlega að borði?

„Það mun skýrast núna á næstu dögum og vikum. Nú eru þessar kjaradeilur meira og minna allar komnar inn á borð Ríkissáttasemjara þannig að við erum í það minnsta komin í sama hús,“ sagði Þorsteinn Víglundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×