Viðskipti innlent

Verðandi yfirtekur rekstur Bókaútgáfunnar Sölku

Atli Ísleifsson skrifar
Dögg Hjaltalín og Hildur Hermóðsdóttir.
Dögg Hjaltalín og Hildur Hermóðsdóttir. Mynd/Verðandi
Útgáfuhúsið Verðandi hefur yfirtekið rekstur Bókaútgáfunnar Sölku.

Í tilkynningu frá Verðandi segir að Salka hafi verið stofnuð árið 2000 og gefið út tugi titla á ári undanfarin ár. „Stærstu hluta útgefinna titla eru handbækur af ýmsu tagi. Heilsubækur, hannyrðabækur, lífstílsbækur, matreiðslubækur og ferðabækur skipa stóran sess í útgáfu Sölku en jafnframt koma reglulega út skáldverk og barnabækur. Nýr eigandi kemur til með að halda áfram á sömu vegferð og er ráðgert að fjórar nýjar bækur komi út fyrir jólin frá Sölku.

Bókaútgáfan verður til húsa á Suðurlandsbraut 4 og verður opið daglega þar frá 1. október.

Útgáfuhúsið Verðandi kemur til með að gefa út bækur undir eigin nafni og nafni Bókaútgáfunnar Sölku. Eigandi Útgáfuhússins Verðandi er Dögg Hjaltalín.“

Dögg segir Bókaútgáfuna Sölku hafa gefið út margar skemmtilegar og góðar bækur sem sé sönn ánægja að halda áfram að selja. „Einnig er útgáfa spennandi bóka framundan og ég hlakka til að fylgja þeim bókum úr hlaði.“

Hildur Hermóðsdóttir, stofnandi Bókaútgáfunnar Sölku, segist afar ánægð með að ung kona skuli taka við rekstri Sölku. „Það var markmiðið með stofnun útgáfunnar á sínum tíma að leggja áherslu á útgáfu bóka fyrir og eftir konur og mér sýnist að Dögg muni halda áfram á sömu braut.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×