Lífið

Verðandi verkfræðingar hlutu hvatningarverðlaun

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Hópurinn var að vonum ánægður með sigurinn í First Lego League hér heima.
Hópurinn var að vonum ánægður með sigurinn í First Lego League hér heima.
„Þetta er tækni- og hönnunarkeppni fyrir nemendur 12 til 17 ára haldin af Háskóla Íslands og fleirum. Þetta er liðakeppni þar sem grunnskólar skrá sig til keppni með forritanlegan Lego róbót. Þetta eru sem sagt vélmenni sem þú kaupir og setur saman og svo þurfa krakkarnir að nota iPad eða tölvu til að forrita hann til að leysa ákveðin verkefni sem eru fyrirfram gefin. Þetta er sama fyrirkomulag og braut um allan heim. Við fáum brautina senda og þurfum að setja hana saman á ákveðnu borði og svo tekur margar vikur að finna út hvernig þú átt að leysa þessar þrautir,“ segir Íris Dröfn Halldórsdóttir, kennari í Myllubakkaskóla, um hvað í ósköpunum First Lego League er eiginlega.

Hún og liðið hennar úr Myllubakkaskóla, krakkar úr 7. bekk, kepptu í First Lego League í nóvember síðastliðnum í Háskóla Íslands. Hópurinn vann og þau hlutu fyrir vikið þátttökurétt í úrslitakeppni First Lego League Scandinavia sem var haldin í Bodo í Noregi í desember. Þar höfnuðu krakkarnir í tíunda sæti – en í keppninni kepptu 47 önnur lið. En róbótabyggingin var aðeins einn liður keppninnar.

„Keppnin er í þremur liðum – einn liðurinn er rannsóknarverkefni og í ár var það samskipti manna og dýra. Þar þarf að kynna sér málið og koma með lausn á ákveðnu vandamáli – síðan þarf að kynna það fyrir dómnefnd. Við ákváðum að flytja verkefnið syngjandi; krakkarnir sungu fyrir dómnefndina. Þriðji liðurinn er í hópefli þar sem keppt er í samheldni liðanna. Síðan þarf að hitta dómarana og sýna og kynna róbótanna – hvernig þau forrituðu og hvernig hann virkar.“

Tekið við Hvatningarverðlaunum Reykjanesbæjar.
Hópnum gekk ótrúlega vel þrátt fyrir nokkur skakkaföll og lítinn fyrirvara.

„Það var þriggja vikna fyrirvari sem við höfðum og öll keppnin fer fram á Skandinavíutungumálum – krakkarnir voru náttúrulega í 7. bekk og bara nýbyrjuð að læra dönsku þannig að þau þurftu að beita enskunni. Það þurfti að tala nokkuð fræðilega ensku en þau æfðu sig rosalega vel. Það bættist líka einn liður við sem var markaðssetning – þar þurfti að vera með bás og að kynna verkefnið. En aðaláherslan hjá okkur var á að keppa í róbótanum og að vinna þá keppni – það var þar sem við enduðum í tíunda sæti. Þetta var mjög gaman, sérstaklega þar sem við höfðum aldrei gert þetta áður.“

Það munaði minnstu að hópurinn myndi ekki ná að taka þátt í keppninni vegna tæknilegra vandamála við Lego vélmennið.

„Það gekk ekki allt eins og skyldi. Róbótinn sem við keyptum var alltaf að stríða okkur, en við vorum ekki viss hvort að það væri út af því að við kynnum ekki almennilega á hann eða það væri eitthvað að honum. Daginn fyrir keppni vorum við búin að forrita og forrita en hann beygði bara út í kant og lét mjög illa – þannig að við hringdum í keppnishaldara og þeir buðust til að lána okkur nýjan undirvagn á róbótann. Við mættum klukkan átta um morguninn á keppnisdegi og rifum róbótann okkar í sundur og byggðum hann upp á nýtt. Fólk hélt að við værum klikkuð með róbótann þarna í tætlum kortér í keppni. En svo gekk þetta mjög vel eftir það.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×