Handbolti

Verða þrjú af fjórum liðum í undanúrslitum EM frá Norðurlöndum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isabelle Gulldén.
Isabelle Gulldén. Vísir/Getty
Sænsku stelpurnar eru á góðri leið inn í undanúrslitin á Evrópumóti kvenna í handbolta eftir níu marka sigur á Slóvakíu, 31-22, í leik liðanna í milliriðli 2 sem fór fram í Zagreb í kvöld.

Það gætu því verið þrjár Norðurlandaþjóðir í undanúrslitum keppninnar. Norðmenn hafa þegar tryggt sér sæti í undanúrslitunum og Danmörk er í öðru sæti í hinum riðlinum fyrir lokaumferðina á morgun.

Sænska liðið komst á topp riðilsins með þessum sigri á Slóvakíu í kvöld en liðið hefur einu stigi meira en Svartfjallaland sem vann Holland fyrr í dag. Frakkar geta náð Svartfjallandi með sigri á Þýskalandi seinna í kvöld.

Isabelle Gulldén var markahæst hjá Svíum með níu mörk en sex marka hennar komu af vítalínunni. Ida Odén, liðsfélagi Birnu Berg Haraldsdóttur hjá IK Sävehof, var næstmarkahæst með fimm mörk.

Sænska liðið komst í 3-0, 6-2 og var 17-11 yfir í hálfleik. Sigur liðsins var því aldrei í mikilli hættu ekki síst eftir að 5-2 sprettur kom liðinu í 22-14 eftir 40 mínútna leik.


Tengdar fréttir

Er Þórir búinn að smita stelpurnar?

Norska kvennalandsliðið í handbolta hefur unnið fimm fyrstu leiki sína á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Króatíu og stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar hafa þegar tryggt sér sæti í undanúrslitunum þrátt fyrir að enn sé ein umferð eftir af milliriðlunum.

Dönsku stelpurnar upp í annað sætið

Danmörk vann þriggja marka sigur á heimakonum í Ungverjalandi, 23-20, þegar liðin mættust í kvöld i milliriðli eitt á Evrópumótinu í handbolta kvenna en mótið fer fram í Ungverjalandi og Króatíu.

Þórir og norsku stelpurnar öruggar í undanúrslitin á EM

Sigurganga Þóris Hergeirssonar og norska kvennalandsliðsins í handbolta á EM hélt áfram í kvöld þegar liðið vann tveggja marka endurkomusigur, 26-24, á Póllandi í öðrum leik sínum í milliriðli á EM í Ungverjalandi og Króatíu.

Evrópumeistararnir á toppinn en breytist það í kvöld?

Svartfjallaland, ríkjandi Evrópumeistari, vann fyrsta leik dagsins á Evrópumótinu í handbolta kvenna sem fram fer þessa dagana í Ungverjalandi og Króatíu. Svartfjallaland vann 31-27 sigur á Hollandi í mikilvægum leik í baráttunni um sæti í undanúrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×