Viðskipti innlent

Verð til ferðamanna komið að þolmörkum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa þurft að glíma við miklar innlendar kostnaðarhækkanir og gengsstyrkingu.
Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa þurft að glíma við miklar innlendar kostnaðarhækkanir og gengsstyrkingu. Vísir/Pjetur
Ferðaþjónustufyrirtæki hefðu þurft að hækka verð um 66 prósent í evrum til þess að geta haft sömu framlegð í íslenskum krónum árið 2017 og árið 2012. Miklar innlendar kostnaðarhækkanir og gengisstyrking krónunnar á umliðnum árum hafa haft víðtæk áhrif á rekstur fyrirtækja í atvinnugreininni. Er verð komið að þolmörkum og ólíklegt að unnt sé að hækka það enn frekar.

Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli Alexanders Eðvards­sonar, meðeiganda á skatta- og lögfræðisviði KPMG, á málstofu sem Íslenski ferðaklasinn og KPMG buðu til um samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu í gærmorgun.

Alexander benti meðal annars á að innlendir kostnaðarliðir ferðaþjónustufyrirtækja hefðu hækkað verulega á milli áranna 2012 og 2017. Þannig hefði vísitala neysluverðs hækkað um 11,5 prósent, launavísitala um 44,3 prósent og byggingarvísitala um 15,9 prósent. Á sama tíma hefði gengi krónunnar styrkst gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum viðskiptalanda Íslands. Nam styrkingin gagnvart breska pundinu til dæmis 32,3 prósentum.

Hann tók tilbúið dæmi um fyrirtæki sem seldi þjónustu á föstu verði í evrum og tæki á sig innlendar kostnaðarhækkanir. Afleiðingin yrði sú að hlutfall rekstrarhagnaðar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) af rekstrartekjum færi úr 20 prósentum árið 2012 og yrði neikvæð um 39 prósent árið 2017.

Ef fyrirtækið héldi hins vegar söluverði í krónum óbreyttu öll sex árin, þá myndi söluverð þjónustunnar í evrum hækka um 35 prósent, samkvæmt útreikningum Alexanders.

Fréttin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×