Erlent

Venstre vill strangari kröfur fyrir múslíma

Atli Ísleifsson skrifar
Talsmaður Vestre segir innflytjendur frá öðrum löndum en Vesturlöndum skapa mest vandamál þegar kemur að aðlögun innflytjenda að dönsku samfélagi.
Talsmaður Vestre segir innflytjendur frá öðrum löndum en Vesturlöndum skapa mest vandamál þegar kemur að aðlögun innflytjenda að dönsku samfélagi. Vísir/AFP
Venstre í Danmörku vill nú að gerðar verði strangari kröfur til innflytjenda frá múslímskum löndum en innflytjenda frá öðrum löndum.

Þetta kemur fram í grein Inger Støjberg, talsmanni Venstre í málefnum innflytjenda, í Berlingske Tidende en hún segir innflytjendur frá öðrum löndum en Vesturlöndum skapi mest vandamál þegar kemur að aðlögun innflytjenda að dönsku samfélagi.

Støjberg segir að hún vilji að gera skuli strangari kröfur um að umræddir innflytjendur sæki sér menntunar eða fái atvinnu. „Við getum séð að þeir innflytjendur sem síst geta aðlagast í Danmörku koma fyrst og fremst frá múslímskum löndum.“

Støjberg minnist sérstaklega í grein sinni á imaminn Abu Bilal í Berlín í Þýskalandi sem bað um aðstoð Allah við að drepa gyðinga í ræðu sinni á föstudaginn. „Það er hryllilegt og varpar skömm á íslam.“

Í samtali við DR viðurkennir hún að yfirlýsingar hennar kunni að virka umdeilanlegar. „En ef ég sem stjórnmálamaður minnist ekki á þetta, þá veit ég einfaldlega ekki hver á að gera það,“ segir Støjberg, en búist er við að Venstre muni leggja fram tillögu í þinginu um strangari kröfur til múslímskra innflytjenda nú í haust.

Martin Henriksen, talsmaður Danska þjóðarflokksins, segist fagna útspili Venstre enda sé það í takt við stefnu síns flokks. Íhaldsflokkurinn hefur hins vegar hafnað málflutningi Venstre, og vill að sömu reglur gildi fyrir alla innflytjendur sem koma til Danmerkur.

Ummæli Støjberg hafa vakið mikil viðbrögð í Danmörku. Garbi Schmidt, prófessor við Hróarskelduháskóla, segir í samtali við DR að það sé ýmislegt í röksemdafærslu Støjberg sem ekki standist, þar á meðal annars að „það sé mikill munur á getu og vilja til að aðlagast“, eftir því hvort þú komir til dæmis frá Bandaríkjunum eða Pakistan.

Venstre er nú í stjórnarandstöðu en næstu þingkosningar fara fram í Danmörku á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×