Innlent

Veltu bílnum og stungu af

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fjölmargir ölvaðir ökumenn höfðu viðkomu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í nótt.
Fjölmargir ölvaðir ökumenn höfðu viðkomu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í nótt. Vísir/GVa
Bíll valt á Reykjanesbraut á öðrum tímanum í nótt, skammt frá Kaplakrika. Í skeyti lögreglunnar kemur fram að alls hafi um fimm verið í bílnum. Þegar lögreglumenn komu á vettvang voru hins vegar allir á bak og burt. Lögreglumennirnir náðu þó tali af ökumanni bifreiðarinnar sem sagður er hafa verið alsgáður. Tildrög bílveltunnar fylgja ekki sögunni.

Umferðarlagabrot eru fyrirferðamikil í dagbók lögreglunnar eftir nóttinna. Þannig var til að mynda ökumaður bifhjóls stöðvaður á Suðurlandsvegi skömmu fyrir klukkan 21 í gærkvöldi. Hann er sagður hafa verið mældur á 210 kílómetra hraða, þar sem hámarkshraðinn er 90 km/klst. Ökumaðurinn þvertók þó fyrir slíkan ofsahraða, hann hafi einungis verið að aka á 180 km/klst.

Ökumaðurinn var engu að síður sviptur ökuréttindum sínum til bráðabirgða því hann er einnig grunaður um önnur umferðalagabrot að sögn lögreglunnar. Þeirra á meðal eru bann við framúrakstri og að hafa ekki skráningarmerki hjólsins greinilegt.

Um klukkustund síðar var bifhjóli ekið á móti rauðu ljós á gatnamótum Geirsgötu og Tryggvagötu. Ökumaðurinn, sem talinn er hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna, hafnaði á bifreið sem skemmdist töluvert við áreksturinn. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og þaðan var svo sendur beint í fangaklefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×