Viðskipti innlent

Veltir því upp hvort útgerðin eigi að sinna rannsóknunum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ.
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ. Vísir/Arnþór.
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍU, segir í aðsendri grein í Markaðinum í dag að sú spurning vakni hvort haf- og fiskirannsóknum á Íslandsmiðum gæti verið betur komið á hendi sjávarútvegsfyrirtækjanna sjálfra gegn lækkun veiðigjalda.

Þar segir hann að Hafrannsóknastofnun fái meðal annars ekki fjármuni til að fara í árlega haustmælingu á loðnustofninum og mæling á honum muni því ekki fara fram fyrr en eftir áramót. Það auki líkurnar á því að mælingin heppnist ekki sem skyldi með þeim afleiðingum að kvótaaukning upp á ríflega 200 þúsund tonn verði ekki gefin út.  

„Til að varpa ljósi á hagsmuni málsins má ætla að útflutningsverðmæti 200 þúsund tonna af loðnu sé ekki undir 12 milljörðum króna í gjaldeyristekjum. Til hliðsjónar má ætla að loðnuleiðangur Hafró kosti um 60-70 milljónir króna," segir Kolbeinn.

Hann segir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa greitt 9,7 milljarða króna í ríkissjóð í formi veiðigjalda. Fyrirtækin greiði auk þessa mun hærri fjárhæðir í gegnum hið hefðbundna skattkerfi.

„Árið 2013 nam kostnaður við rekstur Hafrannsóknastofnunar 1.581 milljónum króna og rekstur Fiskistofu 839 milljónum. Það liggur því fyrir að veiðigjöldin ein og sér standa meira en ríflega undir kostnaði ríkisins af rannsóknum, stjórn og eftirliti vegna sjávarútvegs í landinu. Samt virðast ekki til fjármunir til að standa að allra nauðsynlegustu rannsóknum sem þarf til að hægt sé að nýta auðlindina með ábyrgum hætti," segir Kolbeinn.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×