Innlent

Vélsleðamenn fylla Kauptún um helgina

Tinni Sveinsson skrifar
Farsæl ferðalög á fjöllum eru í brennidepli á sýningunni.
Farsæl ferðalög á fjöllum eru í brennidepli á sýningunni.
Landssamband íslenskra vélsleðamanna í Reykjavík stendur að sýningunni Vetrarlíf 2014 í Kauptúni í Garðabæ um helgina.

„Um er að ræða veglega vélsleða- og útivistarsýningu þar sem lögð verður áhersla á allt er varðar vetrarútivist, öryggisbúnað, fatnað, tryggingar og annað sem nauðsynlegt er til að stunda ánægjuleg og farsæl ferðalög á fjöllum. Til sýnis verða meðal annars 2015 árgerðir af vélsleðum og fjórhjólum,“ kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum.

Sýningin hefur verið haldin á Akureyri undanfarin ár en þar áður í Reykjavík og mættu þá um níu þúsund gestir. Félagar í Landsbjörg munu einnig taka þátt og sýna eigin tæki og búnað og fræða sýningargesti um grundvallaratriði fjallamennskunnar.

Landhelgisgæslan verður á laugardeginum með þyrluæfingu á staðnum ásamt Hjálparsveit skáta Garðabæ. Björgunaratriðið verður upp úr klukkan 12 og verður þyrlunni lent á svæðinu.

Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-síðu sýningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×