Innlent

Velskum kennara vísað frá borði í Keflavík

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ástæðan er sögð vera sú að bandarísk yfirvöld vildu ekki leyfa kennaranum að koma til Bandaríkjanna.
Ástæðan er sögð vera sú að bandarísk yfirvöld vildu ekki leyfa kennaranum að koma til Bandaríkjanna. Vísir/Vilhelm
Velskum kennara, á leið til Bandaríkjanna frá Wales, var vísað frá borði hér á landi þann 16. febrúar eftir að hann millilenti á Keflavíkurflugvelli. Ástæðan er sögð vera sú að bandarísk yfirvöld vildu ekki leyfa kennaranum að koma til Bandaríkjanna. RÚV greinir frá en fjallað er um málið í breskum fjölmiðlum.

Kennarinn er múslimi og var á ferð til Bandaríkjanna með hóp nemenda sinna. Var hann kominn um borð í flugvélina á leið til Bandaríkjanna þegar honum var fylgt úr flugvélinni af öryggisvörðum á flugvellinum.

Talsmaður sveitarfélagsins sem kennarinn starfar fyrirr segir að kennarinn hafi verið með gilda vegabréfsáritun til Bandaríkjanna en hafi samt sem áður ekki fengið leyfi til þess að koma til Bandaríkjanna.

Nemendurnir héldu för sinni áfram en talsmaður sveitarfélagsins segir að engar fullnægjandi skýringar hafi borist á því af hverju kennaranum var vísað frá borði. Er hann sagður vera svekktur og sár með þá meðhöndlun sem hann fékk á flugvellinum. Þá reyndi hann að fá svör hjá bandaríska sendiráðinu hér á landi án árangurs.  Hefur sveitarfélagið krafið bandaríska sendiráðið í London um svör.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gaf sem kunnugt er út fyrr á árinu tilskipun um ferðabann fólks frá sjö múslímaríkjum til Bandaríkjanna. Sú tilskipun er þó ekki í gildi eftir að lögbann var sett á hana.

Talið er að Bandaríkjastjórn vinni nú að því að koma á ferðabanninu á nýju, með nýrri tilskipun.


Tengdar fréttir

Vill nýja tilskipun um ferðabann

Donald Trump Bandaríkjaforseti íhugar nú aðra tilskipun sem meini íbúum ákveðinna landa að ferðast til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×