Innlent

Vellríkir fá líka afslátt á fasteignagjöld

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Þorkell Helgason segir afsláttarreglur í Garðabæ dæmi um að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri geri.
Þorkell Helgason segir afsláttarreglur í Garðabæ dæmi um að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri geri. Fréttablaðið/Arnþór
„Sumir af þeim sem nú eru aldraðir hirtu ekki um að greiða í lífeyrissjóði en geta samt nú verið vellríkir. Er sanngjarnt að fella að fullu niður fasteignagjöld þeirra?“ spyr stærðfræðingurinn Þorkell Helgason, sem fjallar um jaðarskatta í bréfi til bæjaryfirvalda í Garðabæ.

Þorkell segir furðulegt að ekki sé hámark á afslætti af fasteignagjöldum og spyr hvort það sé sanngjarnt að þeir sem eigi 200 milljóna króna eign fái fullan afslátt.

Þá gagnrýnir Þorkell þá aðferð sem notuð er í Garðabæ til að reikna út afslátt ellilífeyris- og örorkuþega á fasteigna- og holræsagjöldum. Bæti einstaklingur, sem eigi 50 milljóna króna fasteign og hafi 4,5 milljónir í árstekjur, við sig 300 þúsund króna tekjum þá sé viðbótin öll gerð upptæk með tekjuskatti, útsvari og fasteignagjöldum. „Sé eign hans meiri en þetta þarf hann meira að segja að borga með hverri krónu sem hann kann að hafa aflað,“ segir Þorkell.

Stærðfræðingurinn segist hafa gert lauslega athugun á stöðu þessara mála í fleiri sveitarfélögum. Í sumum þeirra leiði þrepaskiptur afsláttur til himinhárra jaðaráhrifa. „Þannig getur ein króna í viðbótartekjur kostað fórnarlambið hundruð þúsunda króna og í þeim efnum er útfærsla Reykjavíkurborgar verst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×