Innlent

Velferðarsvið greiðir árlega 30 milljónir króna í leigubílaferðir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
2.500 manns starfa hjá velferðarsviði.
2.500 manns starfa hjá velferðarsviði. vísir/vilhelm
Kostnaður velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna leigubílaþjónustu starfsmanna nam 32,4 milljónum króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í svari frá velferðarsviði við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði skýrist kostnaðurinn af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi vegna þess að sviðið rekur sambýli. Sviðið þarf að greiða kostnað vegna leigubíla þegar vaktaskipti eru á tímum sem strætó er ekki á ferð.

Í öðru lagi rekur velferðarsvið heimaþjónustu, stuðningsþjónustu. Starfsmenn sem sinna þessari þjónustu nýta sér þjónustu leigubíla sem velferðarsvið greiðir fyrir.

Í þriðja lagi er velferðarsvið rekið á nokkrum stöðum í Reykjavíkurborg. Aðalskrifstofurnar eru í Borgartúni en að auki eru fimm þjónustumiðstöðvar víðsvegar um borgina. Starfsfólk þarf að ferðast á milli starfsstöðvanna vegna fundahalda og af öðrum tilefnum og notar þá leigubíla.

Á velferðarsviði starfa 2.500 starfsmenn í 1.500 stöðugildum.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í vikunni að árlegur kostnaður Landspítalans vegna ferða starfsfólks með leigubílum væri um 100 milljónir króna á ári.

María Heimisdóttir, fjármálastjóri spítalans, segir kostnaðinn fyrst og fremst skýrast af því hve víða starfsemi spítalans fer fram.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×