Viðskipti innlent

Vel innan við 20% ekki í útboð

Svavar Hávarðsson skrifar
Jarðvinna, byggingarvinna og tækjakaup verða boðin út.
Jarðvinna, byggingarvinna og tækjakaup verða boðin út. fréttablaðið/anton
Jarðvinna, byggingarvinna og tækjakaup vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu í Álfsnesi verða boðin út. Sá hluti sem ekki verður boðinn út felst í tæknilegri ráðgjöf.

Samkvæmt lögum um útboð er heimilt að semja beint um allt að tuttugu prósent af áætluðum heildarkostnaði án útboðs. Verkstjórn og tæknileg ráðgjöf rúmast vel innan þess ramma, hins vegar er óeðlilegt að gefa upp nákvæmari tölur á þessu stigi enda væri þá útboð á framkvæmdaþáttum marklaust.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sorpu bs. vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins um kæru Íslenska gámafélagsins og dótturfélags þess, Metanorku. Fyrirtækin hafa kært Sorpu til kærunefndar útboðsmála fyrir meint brot á lögum um opinber innkaup.

Í fréttinni kom fram að ákveðið hefði verið að kaupa tæknilausn, sem ekki verður boðin út, strax árið 2007. Ákvörðunin hafi endanlega legið fyrir í maí. Þá var framkvæmdastjóra heimilað að ganga til samninga.

Segir að allt frá árinu 2004 hafi Sorpa unnið að vali á heppilegustu tæknilausn sem uppfyllti skilyrði um að aðferðin félli vel að núverandi hirðukerfi sveitarfélaganna, væri hagkvæm og gæti unnið allan úrgang sem þarf að vinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×