Lífið

Vekja athygli á kostum smáforrita og iPad

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Ingibjörg Ósk Jónsdóttir og Rakel G. Magnúsdóttir standa á bak við upplýsinga- og fræðslusíðuna Appland.is.
Ingibjörg Ósk Jónsdóttir og Rakel G. Magnúsdóttir standa á bak við upplýsinga- og fræðslusíðuna Appland.is. fréttablaðið/vilhelm
„Tækifærin eru svo mörg með iPad og þeim smáforritum sem í boði eru,“ segir Ingibjörg Ósk Jónsdóttir, nemi í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún starfrækir fræðslu- og upplýsingavefinn appland.is. ásamt þeim Rakel G. Magnúsdóttur, tölvunarfræðinema við HR, Ólöfu Unu Halldórsdóttur, tölvunarfræðingi og skólaliða, og Sigurði Fjalari Jónssyni, framhaldsskólakennara og markaðsstjóra Iðunnar fræðsluseturs.

Appland.is er vefur þar sem fólk getur nálgast upplýsingar um hvernig hægt sé að nota iPad og þau smáforrit sem í boði eru, í skólastarfi og til ýmiss konar fræðslu. Þar fást upplýsingar um hagnýt smáforrit fyrir öll skólastig.

„Með iPad er auðveldara að einstaklingsmiða námið því allir krakkar geta lært og leikið í sínu smáforriti en á sínu styrkleikastigi.

Lítið framboð er af íslenskum smáforritum en þó hafa einhver forrit komið út og erlend forrit verið þýdd.“

„Þetta haustið erum við Rakel með þróunarverkefni í samstarfi við HR og Kelduskóla og förum við í Kelduskóla einu sinni í viku. Þar fræðum við annan og þriðja bekk um notkun iPad og eftir hvern tíma bloggum við svo um hvernig fræðslan gekk. Krakkarnir taka þessu ótrúlega vel og er mjög fljótir að læra,“ útskýrir Ingibjörg.

Fræðslustarfið hefur einnig farið fram fyrir börn á leikskólastigi og hefur Rakel unnið með þessum krökkum frá því þau voru í leikskóla.

Markmiðið með verkefninu er einnig að kenna öðrum kennurum við skólann hvernig hægt sé að nýta iPad til kennslu. Einnig er vefurinn hugsaður fyrir alla þá sem vilja fræðast og kynnast iPad og smáforritanotkun í fræðslu- og kennslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×