Innlent

Veittu ökumanni eftirför af Stórhöfða í Hafnarfjörð

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Lögreglan var á ferð víða í nótt. Hér er mynd úr miðbæ Reykjavíkur sem tekin var í nótt.
Lögreglan var á ferð víða í nótt. Hér er mynd úr miðbæ Reykjavíkur sem tekin var í nótt. Vísir / Kolbeinn Tumi
Lögregla þurfti að veita ökumanni eftirför þegar hann stöðvaði ekki bifreið sína eins og lögregla gaf honum merki um. Ökumanninum hafði verið veitt athygli við Stórhöfða vegna undarlegs aksturslag.

Eftirför lögreglu endaði í Hafnarfirði en hún þurfti að aka á bifreið mannsins til að stöðva hann. Bæði bíll mannsins og lögreglu skemmdust en engin slys urðu á fólki. Ökumaður og farþegi í bílnum gistu fangageymslur og verður tekin skýrsla af þeim í dag.

Nóg annað gerðist á vakt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en alls gistu átta fangageymslur. Kona þurfti til að mynda að gista fangageymslur vegna ölvunarástands við Sóltún og önnur sem tekin var við Lóuhóla. Lögreglan handtók einnig mann vegna ölvunar á óspekta þegar klukkan var langt gengin fimm í nótt og var hann látinn sofa úr sér í fangaklefa.

Þá var 16 ára próflaus drengur stöðvaður við akstur bifreiðar. Lögreglan hafði samband við foreldra drengsins og lét hann síðan lausan að lokinni skýrslutöku. Þrír aðrir voru stöðvaðir grunaðir um ölvunar- eða fíkniefnaakstur en þeir voru allir látnir lausir að lokinni skýrslu- eða blóðsýnatöku.

Lögreglu barst tilkynning um líkamsárás við Stórhöfða um þrjú leitið í nótt en ekki er vitað um meiðsl, að því er segir í tilkynningu lögreglu. Gerandinn er ókunnur.

Um klukkan tvö tilkynnti maður innbrot og þjófnað en hann og kærasta hans höfðu vaknað við umgang í íbúð sinni. Sáu þau svo á eftir aðila í svartri úlpu hlaupa út en hann mun hafa stolið fartölvu. Tveir aðilar handteknir  skömmu síðar og við húsleit hjá þeim fannst umrædd tölva, gista þeir fangageymslu þar til skýrsla verður tekin af þeim.

Maður var einnig handtekinn vegna þjófnaðar úr verslun í Breiðholti en honum var sleppt að lokinni skýrslutöku. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×