Lífið

Veitir fólki innblástur með risaverki

Rafaella Brizuela Sigurðardóttir málar risastórt málverk á vegg á Laugaveginum.
Rafaella Brizuela Sigurðardóttir málar risastórt málverk á vegg á Laugaveginum. fréttablaðið/valli
„Það þarf að lífga upp á þetta hverfi því þarna er lítið útsýni. Vonandi veitir þessi mynd fólki innblástur," segir listakonan Rafaella Brizuela Sigurðardóttir.

Hún er önnum kafin þessa dagana við að mála risastórt málverk, sem kallast Draumur hafsins, á hundrað fermetra húsgafl á Laugavegi 159. Verkefnið hófst fyrir þremur vikum og stefnt er á að það klárist eftir um tvær vikur.

„Bróðir vinar míns á íbúð í þessu húsi. Hann vildi lífga upp á þennan stað og spurði hvort ég hefði áhuga á að hjálpa til. Ég játaði því en fór svo til Kína og það varð ekkert úr þessu fyrr en þremur árum seinna þegar ég kom til baka," segir Rafaella.

Um eitt ár fór í að sækja um styrki fyrir verkefnið, auk þess sem Stoð útvegaði ókeypis stillansa og Málning útvegaði málninguna. Eldur og ís hefur styrkt verkefnið með léttum veitingum.

Þetta er stærsta veggmynd Rafaellu til þessa. Hún öðlaðist reynslu af slíkum verkum þegar hún var í listnámi í Los Angeles og starfaði undir stjórn aðgerðasinna og listamanns sem hefur gert stór slík verk þar í borg.

Hún hefur fengið aðstoð frá ýmsum síðan verkið hófst, jafnt ungum sem öldnum. „Það eru allir rosalega spenntir og þetta veitir fólki innblástur. Sumir koma líka með mat, þannig að þetta hefur verið alveg yndislegt."

Rafaella málar á hverjum degi þangað til sólin sest um hálfníuleytið. „Þetta er dálítið erfitt. Ég fæddist í Mexíkó og er með svolítið suðrænt blóð og skinn, þannig að mér er rosalega kalt en þetta er líka mjög spennandi."

Hugmyndin á bak við listaverkið kemur úr gamalli persneskri sögu úr bahái-trúnni og einnig úr íslenskri menningu. „Myndin er um fiska og haf. Ég hugsa mikið um sjómennina og það sem Íslendingar eru búnir að ganga í gegnum."

Hægt er að fylgjast með framgangi málverksins á Facebook-síðunni Draumur hafsins.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×