Innlent

Veisluborðið svignar í árlegu gestaboði Nönnu

Heimir Már Pétursson skrifar
Í íbúð við Grettisgötu í Reykjavík stendur nú yfir eitt safaríkasta gestaboð sem í boði er í Reykjavík fyrir hver jól, þar sem matgæðingurinn og rithöfundurinn Nanna Rögnvaldardóttir býður stórum hópi fólks í veglegt hlaðborð klassískra og framandi rétta. Heimir Már leit við í veislunni nú síðdegis.

Nanna er öðrum matgæðingum að góðu kunn enda gefið út fjölda bóka um mat og matarmenningu bæði á íslensku og ensku mörg undanfarin ár. Það hefur verið fastur liður hjá henni í rúm 20 ár að hafa opið hús á Þorláksmessu þar sem hún býður upp á dýrindis kræsingar. En nú verður hún að heiman á Þorlák þetta árið og bauð því til veislunnar í dag.

Allt upp í 80 manns koma að veisluborðinu á hverju ári og þótt Nanna þekki flesta gestina þekkir hún suma eingöngu í gegnum þetta boð og suma alls ekki.

Meðal þess sem boðið var upp á var heilreykt hangilæri samkvæmt 280 ára verkunaraðferð úr heimabyggð Nönnu og fleira og fleira. En bara ekki kæsta skötu og lítur Nanna á boðið sem flóttamannahjálp fyrir þá sem ekki kunna að meta þann vestfirska rétt.

Kíkja má í gestboð Nönnu í sjónvarpsfréttinni hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×