Körfubolti

Veikur eða ekki veikur? | Liðsfélagarnir gagnrýndu Kevin Love

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Love.
Kevin Love. Vísir/Getty
Það er sannnkallað krísuástand í herbúðum NBA-liðsins Cleveland Cavaliers og bandarískir fjölmiðlar keppast við að segja frá óánægju leikmanna á bak við tjöldin.

Nýjustu fréttir herma að leikmenn hafi haldið krísufund fyrir æfingu liðsins í gær og þar hafi sérstaklega einn leikmaður fengið að heyra það. Sá leikmaður er Kevin Love.

Samkvæmt heimildum ESPN þá voru liðsfélagar Kevin Love að efast um alvarleika veikinda hans í tapleiknum á móti Oklahoma City Thunder á laugardaginn.

Cleveland hefur tapað 9 af síðustu 12 leikjum sínum og liðið fékk á sig 148 stig á móti Thunder.

Love yfirgaf salinn í Thunder-leiknum eftir að hafa aðeins spilað í þrjár mínútur. Hann mætti heldur ekki á æfingu daginn eftir. Margir liðsfélaga hans töldu að hann hefði gefist upp á liðinu og voru mjög óánægir með fjarveru hans.





Það gekk mikið á þegar menn ræddu málin og þar voru æsingur og læti. Love þurfti að standa upp á fundinum og útskýra sitt mál til að róa menn. Þjálfarinn Ty Lue og framkvæmdastjórinn Koby Altman voru báðir á fundinum.

Margir kenna Kevin Love um slaka spilamennsku liðsins en eins hefur Isaiah Thomas verið kennt um ófarirnar. Thomas þarf mikið að rekja boltann í sínum leik og margir kvarta undan því ekki síst þar sem bakvörðurinn er heldur ekkert sérstakur varnarmaður.

Fjölmargir bíða líka eftir því að Ty Lue missti starfið sitt en nú reynir heldur betur á hann í að reyna að koma liðinu aftur á réttan kjöl.

Næsti leikur Cleveland er á móti San Antonio Spurs í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×