Innlent

Veikindi lögreglumanna: Lögreglan mun ekki geta sinnt öllum verkefnum dagsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mótmæli lögreglumanna við stjórnarráðið í liðinni viku.
Mótmæli lögreglumanna við stjórnarráðið í liðinni viku. vísir/pjetur
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu vegna óvenjulegrar stöðu sem komin er upp hjá embættinu, þar sem margir lögreglumenn boðuðu forföll í dag vegna veikinda. Af þeirri ástæðu mun lögreglan ekki geta sinnt öllum þeim verkefnum sem koma munu upp í dag.

Segja má að þetta hafi verið viðbúið en fjármálaráðuneytið sendi Landssambandi lögreglumanna (LL) bréf í gær vegna málsins. Þar voru lögreglumenn varaðir við aðgerðum á borð við þessar en þeir standa nú í kjarabaráttu við ríkið.

Telur fjármálaráðuneytið að veikindaforföllin jafngildi ólöglegum verkfallsaðgerðum. Því vill ráðuneytið meina að LL verði ábyrgt fyrir tjóni sem verður af völdum veikinda lögreglumanna.

Tilkynningu frá LRH má sjá í heild hér að neðan:

Sú óvenjulega staða kom upp hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun að margir lögreglumenn hjá embættinu boðuðu forföll vegna veikinda.

Af þeirri ástæðu er viðbúið að ekki verði unnt að sinna öllum verkefnum sem koma á borð lögreglu í dag, en þau sem teljast brýn og áríðandi verða vitaskuld sett í forgang eins og jafnan áður.

Lögreglan biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda, en biðlar jafnframt til fólks að sýna henni skilning og þolinmæði í dag.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×