Íslenski boltinn

Veigar Páll: Staða mín hjá Stjörnunni hefði versnað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll ræðir við fjölmiðlamenn í dag.
Veigar Páll ræðir við fjölmiðlamenn í dag. Vísir/Ernir
Veigar Páll Gunnarsson er nýjasti liðsmaður FH en hann gerði í dag eins árs samning við Íslandsmeistarana. Það var tilkynnt á blaðamannafundi í dag.

„Þetta gerðist afskaplega snögglega. Ég hafði heyrt af miklum áhuga FH en þetta var fljótt að gerast eftir að þetta kom upp fyrir örfáum dögum síðan,“ sagði Veigar Páll í viðtali við Vísi í dag.

„FH-ingar höfðu samband og við ákváðum að skella okkur á þetta,“ sagði hann enn fremur.

Veigar Páll á að baki 127 leiki í efstu deild en hann hefur skorað í þeim 33 mörk. Hann skoraði fimm mörk í 17 leikjum fyrir Stjörnuna í sumar sem hafnaði í öðru sæti á eftir FH en Veigar var mikið notaður sem varamaður.

Sjá einnig: Veigar Páll samdi við meistarana

„Það kom í ljós um miðja síðustu viku að leiðir myndu skilja. Við settumst niður eftir að ég kom heim úr fríi og ákváðum í sameiningu að best væri að leiðir myndu skilja.“

Veigar Páll byrjaði aðeins þrjá leiki af 17 í sumar og skoraði fjögur mörk eftir að koma inn af bekknum. Hann viðurkennir fúslega að hann sé ekki sáttur við þann mínútufjölda sem hann fékk.

„Mér gekk vel í þeim fáum leikjum sem ég spilaði og þó svo að það hafi verið glæsilegt fyrir Stjörnuna að hafna í öðru sæti hefði ég viljað spila meira. En hópurinn er sterkur og það er þjálfarinn sem ræður.“

„Líklegt er að þetta hefði ekki breyst ef ég hefði haldið áfram í Stjörnunni og líklega versnað. Ég er því ánægður og stoltur af því að FH sýndi mér áhuga og mun gera allt sem ég get til að FH haldi sínu striki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×