Lífið

Veiðiþjófar langt komnir með útrýmingu nashyrninga

Frosti Logason skrifar
Aðkoman að nashyrningnum Ísabellu var hörmuleg.
Aðkoman að nashyrningnum Ísabellu var hörmuleg.
Nú hafa rúmlega 800 nashyrningar verið drepnir af veiðiþjófum í Suður-Afríku það sem af er þessu ári. Þar af hafa yfir 500 dýr verið drepin í Kruger þjóðgarðinum sem á að heita verndarsvæði fyrir villt dýr á svæðinu.

Yfirvöld í Suður-Afríku segja að 668 dýr hafi verið drepin 2012 og 1004 dýr árið 2013. Tíu árum áður voru aðeins 22 dýr drepin, svo aukningin er ógnvænleg. Ef þróunin heldur áfram með þessum hætti er óttast að þess verði ekki langt að bíða að afríski nashyrningurinn deyi út.

Ísabella var vinsæl og elskuð.
Hér í Glen Afric dýrathvarfinu, þar sem við dveljum þessa dagana, er fólk mjög uggandi yfir þróuninni. Starfsfólk og sjálfboðaliðar á staðnum búa líka yfir sinni eigin bitru reynslu. Fyrir rétt rúmum mánuði var nashyrningurinn Isabella drepinn þegar veiðiþjófar brutu sér leið hingað inn í skjóli nætur, skutu dýrið tveimur skotum og söguðu svo af því hálft andlitið til þess að komast yfir hornin. Hér ríkir mikil sorg en á sama tíma er mikill hugur í mannskapnum til aðgerða.

Sjálboðaliðar Glen Afric hafa nú efnt til söfnunnar fyrir bættum aðbúnaði til þess að betur megi vernda nashyrninga á svæðinu. Allur ágóði söfnunarinnar mun renna til uppbyggingar á öruggu svæði og húsnæði til að hýsa dýrin í á nóttunni en það er sá tími sem mest allur veiðiþjófnaður á sér stað hér í Suður-Afríku. Söfnunina má finna á vefnum með því að smella hér og facebook síðu átaksins finnur þú hérna.

Mótmælandi fyrir utan Kínverska sendiráðið í Suður-Afríku.
Sumir telja að horn nashyrninga búi yfir margvíslegum lækningarmætti. Sá lækningarmáttur hefur þó aldrei verið sannaður. Lyf úr hornunum eru vinsæl söluvara í Víetnam og víðar í Asíu á meðal skottulækna og þeirra sem gefa sig út fyrir að stunda svokallaðar óhefðbundnar lækningar. Þar mylja menn hornin niður í fíngert duft og setja í hylki sem gleypt eru við kvillum eins og blóðnösum, krömpum og hita. 

Eftirspurnin eftir hornunum hefur gert veiðiþjófnað ábatasaman og eru þjófarnir orðnir ótrúlega skipulagðir við iðju sína. Vitað er að sumir þeirra nýta sér tæknibúnað eins og nætursjónauka, hljóðdeyfa, skotheld vesti, sjálfvirk skotvopn og þyrlur.

Höfundur greinar ásamt nokkrum sjálfboðaliðum í Glen Afric dýrathvarfinu í Suður-Afríku.
Veiðiþjófarnir sem brutu sér leið hingað inn í Glen Afric athvarfið voru að minnsta kosti tíu saman í hóp þegar þeir myrtu Isabellu. Þeir virðast hafa undirbúið drápið vel og verið búnir að kannað aðstæður en starfsfólk hér var vart við grunsamlegt þyrluflug yfir svæðið, sem er vel girt af og vaktað allan sólarhringinn, í vikunni áður en þjófarnir létu til skara skríða. Þess má geta að gerðið sem Ísabella dvaldi í var alveg við hliðina á húsinu þar sem sjálboðaliðar Glen Afric hafa aðsetur.

Myndband af Ísabellu fylgir með hér að neðan en það var skotið nokkrum dögum áður en veiðiþjófarnir drápu dýrið. 

Vinirnir Frosti Logason og Sigurður Þorsteinsson fara í haust í sex vikna ferðalag um Asíu og Afríku. Þeir ætla að leyfa lesendum Vísis að fylgjast með ferðalaginu í máli, myndum og myndböndum. Félagarnir fara meðal annars í safarí í Suður-Afríku, fara á brimbrettanámskeið á Balí og læra að kafa í Taílandi. Verkefnið gengur undir heitinu AsíAfríka.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×