Innlent

Veiðigjöldin verða óbreytt

kolbeinn óttarsson proppé skrifar
Sjávarútvegsfyrirtæki hafa skilað miklum hagnaði og stefnir í það sama á þessu ári. Þar skiptir góð loðnuveiði miklu.
Sjávarútvegsfyrirtæki hafa skilað miklum hagnaði og stefnir í það sama á þessu ári. Þar skiptir góð loðnuveiði miklu. Fréttablaðið/Hari
Frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um veiðigjöld er tilbúið til framlagningar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er gert ráð fyrir óbreyttu veiðigjaldi. Ekki er þó ljóst hvort óbreytt gjald vísi til sömu heildarupphæðar eða óbreyttrar krónutölu á tegundir. Á þessu tvennu er reginmunur, þar sem leiða má líkur að því að óbreytt krónutala á tegundir myndi skila hærri heildarupphæð veiðigjalda til ríkissjóðs í takti við aukið aflamagn og þá sérstaklega í uppsjávartegundum eins og loðnu.

Heimildum ber ekki saman um hvort frumvarpið verður til bráðabirgða eða varanleg lausn, en vilji ráðherra stendur til hins síðarnefnda. Tíminn er hins vegar naumur, en leggja verður fram frumvörp fyrir mánaðamót.

Mikil leynd hvílir yfir efni frumvarpsins og óskum Fréttablaðsins um viðtal við ráðherra vegna málsins var hafnað.

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, sagðist ekkert vita hver staðan væri og vísaði á ráðherra. Tíminn sé þó að renna út ef eigi að setja varanleg lög. „Málið þarf þó að koma fram fljótlega ef við ætlum að fá endanlegan frágang í því. Það er alveg ljóst.“

Upphaflega átti frumvarp um veiðigjöld að vera hluti af breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu, en ráðherra hætti við að leggja fram frumvarp um þau. Því þarf að framlengja bráðabirgðaákvæði um veiðigjöldin, náist ekki að setja þeim ný lög.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir illa haldið á málum sé málið ekki komið lengra. Hún kvartar yfir algjörum skorti á samráði.

„Samráðsnefnd um veiðigjöld, sem er þingkosin nefnd sem var kjörin í nóvember á síðasta ári, hún hefur ekki haft neina aðkomu að þessu máli og er okkur farið að lengja eftir því hvað þarna er á ferðinni. Þetta hefur ekkert komið inn á borð til okkar. Það er svo sem í stíl við annað hjá þessari vesalings ríkisstjórn, að gera þetta svona á handarbakinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×