Viðskipti innlent

Veiddu tíu tonn af steinbít á mann

Gissur Sigurðsson skrifar
Afburðagóð steinbítsveiði eru á Vestfjarðamiðum þessa dagana og falla aflametin eitt af öðru. Dæmi eru um 10 tonna afla á einn sjómann í einni veiðiferð sem tekur innan við sólarhring.



Þannig kom krókaaflamarksbáturinn Einar Hálfdáns ÍS í land í Bolungarvík í fyrradag með liðlega 20 tonn, mest steinbít, úr einni veiðiferð. Aðeins tveir menn eru á bátnum þannig að þetta var 10 tonna afli á mann. Greint var frá þessu á vefnum Vikari.is.



Einar HálfdánsIS er það lítill bátur að ekki komst nema rösklega 10 tonn í lestina þannig að verulegur hluti aflans var á þilfarinu.



Annar heldur stærri bátur, Halldór Einarsson ÍS, kom líka að landi með liðlega 30 tonn en þar voru þrír í áhöfn og var aflinn því einnig 10 tonn á mann á innan við sólarhring. Aldrei áður hefur bátur af þessari stærð borðið 30 tonn af fiski að landi.



Það sem af er mánuðinum hefur meðalverð á steinbít verið 207 krónur á fiskmörkuðum þannig að aflaverðmæti á hvern sjómann er liðlega tvær milljónir króna, á innan við sólarhring.



Báðir bátarnir fengu þennan afla í Víkurál og báðir veiða þeir á línu. Margir aðrir bátar eru einnig að fá afbragðsgóðan afla á þessum miðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×