Skoðun

Vegna nefndar um dómarastörf

Gunnlaugur Claessen skrifar
Vegna fyrirspurnar fréttastofu 365 um störf nefndar um dómarastörf, NUD. Nefnd um dómarastörf setti reglur í kjölfar gildistöku laga um dómstóla 1998 sem varða hlutafjáreign dómara og aukastörf þeirra. Reglurnar voru birtar í Stjórnartíðindum. Hvað varðar fyrst hlutafjáreign dómara þá eru lögin og reglurnar alveg skýr. Dómara ber sjálfum að eigin frumkvæði að tilkynna NUD um hlutafjáreign sína þegar slík eign verður til, hvort sem það gerist fyrir kaup, arf eða með öðrum hætti. Kjarni málsins er sá að þessi lagaskylda hvílir á dómaranum sjálfum og nefndin þarf ekki að halda uppi fyrirspurnum með reglulegu millibili.

Þessi skylda er öllum dómurum kunn. Þrátt fyrir það gekk nefndin eftir því við dómarahópinn í upphafi hvort slíkum tilkynningarskyldum eignum væri til að dreifa. Í nokkrum tilvikum reyndist svo vera. Tilkynningar eftir það um hlutafjáreign dómara voru fáar. Ef engin sérstök viðbrögð urðu af hálfu nefndarinnar við slíkum tilkynningum mátti dómari ganga út frá því með réttu að ekki væru gerðar athugasemdir.

Þessi sama lagaskylda hvílir á hverjum og einum dómara að upplýsa um aukastörf sín og fá leyfi fyrir þeim, ef undan eru skilin tiltekin störf sem aðeins eru tilkynningarskyld. Sumum aukastörfum er dómurum beinlínis óheimilt að sinna. Flest falla í þann flokk þar sem leyfi nefndarinnar er áskilið og þá óheimilt að sinna slíku fyrr en að fengnu leyfi. Enn önnur störf nefndarinnar lutu að kvörtunum aðila dómsmála á meðferð dómara á máli viðkomandi, en umfang sumra þeirra og skjalafjöldi gat orðið talsverður.

Öll gögn í vörslu nefndarinnar

Eftir að lokið var umfjöllun einstakra mála voru gögn þeirra lögð upp í tímaröð. Við starfslok í nefndinni 2010 kom ég skjalasafni hennar í hendur viðtakandi formanns. Fyrir mistök mín varð þá eftir lítill hluti skjalasafnsins. Skjalakassa, sem geymdi þau gögn, kannaði ég ekki fyrr en eftir starfslok mín í Hæstarétti og þá komu mistökin í ljós. Þessu greindi ég eftirmanni mínum í nefndinni frá fyrir alllöngu síðan. Gögnunum var hins vegar ekki komið á réttan stað fyrr en 4. desember sl. þegar eftir því var leitað. Í þeim reyndist vera eitt skjal sem snertir umfjöllun 365 miðla fyrr í vikunni, en það er tilkynning Markúsar Sigurbjörnssonar hrd. frá 2007 um sölu hlutafjár. Tilkynning Markúsar nokkrum árum fyrr um að hann hafi eignast hlutabréf fyrir arf mun vera í þeim hluta skjalasafnsins sem var afhentur 2010. Eftir þetta á að vera fullvíst að öll gögn, sem beint hefur verið til nefndarinnar eða sem orðið hafa til hjá henni, eru nú í vörslum nefndarinnar.

Höfundur var formaður NUD frá 1998 til 2010.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×