Innlent

Vegir lokaður vegna veðurs

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Óveður er nú á norðanverðu Snæfellsnesi. Vegurinn á milli Ólafsvíkur og Grundarfjarðar var lokaður vegna veðurs og hefur klæðning hans einnig skemmst. Hann hefur verið opnaður aftur en ófært er um Fróðárheiði.

Vegna veðursins og hættu á slitlagsskemdum hefur ásþungi verið takmarkaður við tíu tonn á vegum á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Frekari upplýsingar um takmarkanirnar má sjá á vef Vegagerðarinnar.

Krapi og vatselgur er á Hellisheiði og í Þrengslum og er hálka á Mosfellsheiði og krapi á Lyngdalsheiði. Óveður er við Markarfljót, undir Eyjafjöllum sem og við Hafnarfjall. Ófært er um Kjósaskarð.

Á vef Vegagerðarinnar segir að talsvert sé autt á Norðurlandi vestra, en þó séu hálkublettir víða á útvegum. Óveður er á Þverárfjalli og í Langadal. Hálkublettir eru á Vatnsskarði.  Hálka eða hálkublettir eru víða á leiðum Norðurlandi eystra. Snjóþekja er á Öxnadalsheiði.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á fjallvegum og víða á Héraði, Þæfingsfærð er á Möðrudalsöræfum.

Greiðfært er með suðausturströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×