Innlent

Vegagerðin kemur öllum á Aldrei fór ég suður

Snærós Sindradóttir skrifar
Pétur Magnússon, kynnir á Aldrei fór ég suður, bisar hér við að koma partýtjaldinu upp
Pétur Magnússon, kynnir á Aldrei fór ég suður, bisar hér við að koma partýtjaldinu upp VÍSIR/Snærós
Allt er að smella saman á Aldrei fór ég suður, rokkhátíð alþýðunnar, sem fram fer á Ísafirði um helgina.

Búið er að aflýsa öllu flugi vestur en þeir tónlistarmenn sem eiga að koma fram á hátíðinni eru lagðir af stað í rútum. Birna Jónasdóttir rokkstýra vonast til þess að dagskráin riðlist ekki vegna þessa.

„Við vorum með rútu á standby og erum bjartsýn á að allt gangi vel,“ segir Birna.

Vegagerðin í Hólmavík er komin með þungavinnuvélar á Steingrímsfjarðarheiði en heiðin var ófær fyrr í dag.

„Við munum bara moka Steingrímsfjarðarheiðina þar til allir komast yfir. Við munum moka á meðan það eru bílar að fara yfir.“ segir Jón Hörður Elíasson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík.

Unnsteinn Manúel Stefánsson, söngvari Retro Stefson, er lagður af stað í rútunni  úr höfuðborginni „Við erum á einhverri torfærutýpu með Hjaltalín, Cell 7, Vio sem unnu músíktilraunir og Moses Hightower. Svo eru hér nokkrir úr  Markúsarbandinu. Hér eru líka tveir legendary túrmanagerar, þau Siggi frændi og Sigga litla. Það er mjög góð stemning hjá okkur.“

Partýtjaldið á leið upp í gær. Hér verður drukkið, sungið og borðaður plokkariVÍSIR/Snærós
Aldrei fór ég suður fer fram í húsnæði Gámaþjónustunnar á Ísafirði. Sjálfboðaliðar hafa síðustu daga unnið hörðum höndum að því að ryðja ruslinu frá og setja upp svið og hljóðkerfi. Í gær voru partýtjöld sett upp fyrir utan tónleikastaðinn þar sem seld er hin heimsfræga fiskisúpa, plokkfiskur og bjór.

Vísir.is mun birta myndir og fréttir frá hátíðinni alla helgina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×